Dökkgrænar og hraustlegar stafafurur tilbúnar í kassa til uppstillingar við verslanir og fyrirtæki.
Dökkgrænar og hraustlegar stafafurur tilbúnar í kassa til uppstillingar við verslanir og fyrirtæki.

Nýjustu fréttir úr jólatrjáaræktinni

Áhugi Íslendinga á jólatrjám sem ræktuð eru innan lands virðist vera að aukast að mati Else Møller, skógfræðings og skógar­bónda í Vopnafirði. Öll íslensk jólatré seld­ust upp fyrir síðustu jól og framboðið stóð ekki undir eftirspurn. Áhugaverð jólatrjáa­ráðstefna verður haldin í Birmingham á Englandi í sumarbyrjun.

Í nýútkomnu fréttabréfi sínu til jólatrjáa­bænda fer Else stuttlega yfir jólatrjáasöluna um nýliðin jól og hefur eftir Jóhanni Þór­halls­syni, skógarbónda og jólatrjáa­fram­leið­anda á Héraði, að skógarbændur á Austur­landi hafi sent frá sér um 550 jólatré. Trén voru seld hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarð­ar. Hjá Skógræktinni jókst sala jóla­trjáa lítillega frá því sem var hjá Skóg­rækt ríkisins árið áður. Stafafura seldist mest á Suðurlandi en rauðgreni og blágreni seldist líka ágætlega að því er Else hefur eftir Hreini Óskarssyni, fyrrverandi skógarverði á Suðurlandi.

Að því er Einar Gunnarsson hjá Skógræktarfélagi Íslandss segir seldu skógræktarfélögin eilitlu færri tré að þessu sinni en í fyrra. Þó gekk salan vel víða, t.d. hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga sem seldi jólatré beint úr skógi auk torg­trjáa og kassatrjáa fyrir verslanir og fyrirtæki. Þá var líka góð sala hjá Sólskógum í Kjarnaskógi. Eins og undanfarin ár var mest spurt um stafauru en minna um rauðgreni.


Else segir í fréttabréfinu að framboð á jóla­trjám sem ræktuð eru á Íslandi hafi ekki ver­ið nægilegt til að anna eftirspurninni og nánast allt sem barst á markaðinn hafi selst ásamt nordmannsþininum danska sem seldist líka vel, að því er Else hefur eftir Kristni Einarssyni hjá Húsasmiðjunni. Skógræktarfélag Íslands birtir ítarlegra yfirlit um jólatrjáasöluna 2016 í Skóg­rækt­ar­ritinu á næstunni.

Else telur að þessar fyrstu fréttir af sölunni um síðustu jól bendi til þess að áhugi fyrir íslenskum jólatrjám sé á uppleið og að markaðurinn getið tekið við mun fleiri jóla­trjám en framleidd eru nú. Því sé mikilvægt að halda áfram að gróðursetja, sinna þeim trjám sem eru komin í vöxt og fá yfirlit yfir þann fjölda sem verður tilbúin fyrir næstu jól. Tíminn sé fljótur að líða.

Þá er í fréttabréfinu minnt á jólatrjáavefinn sem er á vef Skógræktarinnar, skogur.is. Þar er meðal annars „dagatal jólatrjáabóndans“ sem sett hefur verið saman úr þeim fróðleik sem Else hefur miðlað með fréttabréfi sínu. Í daga­tal­inu er auðvelt að sjá hvaða verkum er mælt með að sinna í hverjum mánuði í jólatrjáarækt og jólatrjáasölu. á jóla­trjáa­vefnum er líka ýmislegt fræðsluefni um þessi mál.

Loks er sagt frá því í fréttabréfinu að samtök evrópskra jólatáaræktenda, Christmas trees growers council of Europe (CTGCE), hafi haldið fund nú í febrúar í Þýskalandi þar sem m.a. var rætt um væntanlegan sumarfund samtakanna í Bretlandi á komandi sumri. Öllum jólatrjáaræktendum frá aðildarlöndum CTGCE býðst að taka þátt í þessum viðburði og nú eru Íslendingar þar á meðal. Fundurinn fer fram 30. maí til 2. júní í Birmingham. Þátttakendur sem skrá sig fyrir 31. mars borga 450 pund, um 61.100 íslenskar krónur, fyrir þáttökuna og í því er allt innifalið nema flugið til Bret­lands. Else Møller gefur frekari upplýsingar um fundinn í síma 867 0527 eða netfanginu else.akur@simnet.is.

Fréttabréfi til jólatrjáaframleiðenda fylgir líka fróðleikur um nytsemi nálaprófa sem fjallað er um í annarri frétt hér á skogur.is

Texti og myndir: Pétur Halldórsson