Af vef Rannsóknastofnunar landbúnaðarins

Mörg lönd eru nú að setja almennar reglur um viðarumbúðir sem fylgja ýmsum vörum við innflutning. Er það gert í því markmiði að minnka hættuna á að með þeim berist sjúkdómar og meindýr sem skaðað geta innlenda skógrækt. Mest er hættan þegar nýr og ferskur viður er notaður í umbúðir og skaðvaldar sem voru í trjánum á vaxtarstaðnum berast áfram með viðnum. Með viðarumbúðum er hér átt við hvers kyns óunnin trjávið sem notaður er til að bera, styðja við og verja vörur í flutningi, einkum trékassa og vörubretti. Hins vegar er undanskilinn ýmis konar unnin viður sem til er orðinn við límingu, hitun eða pressun eins og krossviður og spónarplötur. Kínverjar settu reglur er tóku gildi haustið 2002 og Kanadamenn nú frá síðustu áramótum. Bandaríkin, Evrópusambandið og fleiri ríki hafa boðað að settar verði reglur á þessu ári. Tekið er mið af alþjóðlegum plöntuverndarstaðli sem gefinn var út hjá FAO í mars 2002 (ISPM 15). Í stuttu máli gengur hann út á eftirfarandi:

Viðarumbúðir eða sá trjáviður sem notaður er í umbúðir skal hitaður þannig að hitinn nái 56°C í innsta kjarna viðarins og haldist við þann hita í 30 mínútur. Komið skal upp vottunarkerfi í hverju landi undir umsjón plöntueftirlitsaðilans þar sem fyrirtæki geta hlotið viðurkenningu til að framkvæma slíka hitameðhöndlun og fái við það ákveðið einkennisnúmer. Umbúðirnar skulu síðan merktar á ákveðinn hátt og skal það vera staðfesting þess að umrædd meðhöndlun hafi farið fram.

Umbúðir sem einu sinni hafa verið hitaðar þarf ekki að hita aftur nema við þær sé gert með ómeðhöndluðum viði. Reikna má með að í framtíðinni verði trébretti og aðrar viðarumbúðir sem fara á milli landa sérmerktar til staðfestingar á því að þær séu tryggar með tilliti til skaðvalda.

Til að koma í veg fyrir að umbúðirnar valdi útflytjendum okkar erfiðleikum verður reynt nú þegar að koma af stað vottunarferli þar sem fyrirtæki sem þess óska hljóti viðurkenningu á því að þau geti hitað umbúðir eða smíðað umbúðir úr hituðum trjáviði svo fullnægjandi sé. Þau fá síðan heimild til að merkja umbúðirnar með merki sem innflutningslöndin viðurkenna. Landbúnaðarráðuneytið mun á næstunni setja reglugerð um viðarumbúðir við útflutning á vörum og annast plöntueftirlit RALA framkvæmd hennar.

Reglur okkar um innflutning á trjáviði eru einfaldar. Ef trjáviðurinn er án barkar fellur hann ekki undir reglugerð um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum (nr. 189/1990). Plöntueftirlitið hefur því engin afskipti af innflutningi á venjulegu timbri eða viðarumbúðum. Að verulegu leyti fylgja þeir skaðvaldar sem við óttumst mest berkinum. Ef trjáviðurinn er með berki kemur til framkvæmda bannlistinn í viðauka III þar sem bannað er að flytja inn álm (Ulmus sp.), birki (Betula sp.), furu (Pinus sp.), greni (Picea sp.), lerki (Larix sp.), víði (Salix sp.), ösp (Populus sp.) og öll barrtré (Coniferae) frá löndum utan Evrópu. Trjávið með berki af öðrum tegundum en falla undir viðauka III má flytja inn ef heilbrigðisvottorð fylgir.

Hættan sem fylgir innflutningi á viðarumbúðum er minni hér en víðast annars staðar. Í mörgum tilvikum er loftslag hér ekki fullnægjandi til að skaðvaldurinn geti lifað og dafnað eða að mikilvægustu hýsilplönturnar eru ekki fyrir hendi. Þjóðhagslegir hagsmunir af skógrækt hér eru af öðrum toga en í löndum með umfangsmikinn skógariðnað. Hins vegar getur verið ástæða til að endurmeta stöðuna í ljósi nýrra reglna í öðrum löndum, aukinni skógrækt og hlýnandi veðurfari.

Sjá hinn alþjóðlega staðal um viðarumbúðir: ISPM 15

Sjá reglur Kanadamanna.

Sjá Bandaríkin: http://www.aphis.usda.gov/ppq/swp/