Frá Mógilsá í morgun þegar námskeiðið var að hefjast. Starfsfólk Skógræktarinnar af Vestur- og Suðurlandi kom saman á Mógilsá en með fjarfundarbúnaði er fylgst með námskeiðinu á sex öðrum stöðum á landinu. Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson.
Þátttakendur staddir á sjö stöðum á landinu
Í morgun hófst tveggja daga námskeið hjá Skógræktinni um landupplýsingavinnslu í ArcGIS-kerfinu. Námskeiðið er einkum ætlað skógræktarráðgjöfum Skógræktarinnar sem starfa vítt og breitt um landið. Þátttakendur í námskeiðinu sitja nú á sjö stöðum á landinu og fylgjast með gegnum nýtt fjarfundakerfi Skógræktarinnar. Þetta sparar tíma, fé og fyrirhöfn en dregur líka úr koltvísýringslosun.
Fyrri dag námskeiðsins er farið yfir ýmis hagnýt atriði sem snerta landupplýsingavinnslu í ArcGIS, Einnig verður stutt kynning á QGIS-hugbúnaðinum sem er ókeypis, einfaldur í notkun og býður upp á ýmsan sveigjanleika. Seinni dagurinn verður hins vegar helgaður ArcGIS Online.
Landupplýsingatækni fleygir nú mjðg fram og sífellt koma nákvæmari gögn sem gera kleift að kalla fram mismunandi kort af landsvæðum eftir því hvers konar upplýsinga er óskað hverju sinni. Meðal annars er nú hægt að greina væntanleg skógræktarsvæði mjög nákvæmlega eftir hæðarlínum sem hefur margvíslega kosti í för með sér við skógræktarskipulag og gerð skógræktaráætlana. Mun auðveldara er nú til dæmis að greina lægðir í landslagi, svokallaða frostpolla þar sem ungum trjáplöntum getur verið hætt við skemmdum vegna ótímabærra frosta, einkum á vori og hausti. Slíkar upplýsingar geta líka nýst við skipulag skógarvega, girðingarstæða og fleira og fleira. Kalla má fram með svipuðum hætti úrkomukort fyrir tiltekin svæði og fleira mætti nefna. Sífellt bætist við gagnagrunninn af upplýsingum sem geta komið að gagni við gerð skógræktarskipulags og skógræktarsamninga.
Björn Traustason, landfræðingur og sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, hefur umsjón með námskeiðinu. Hann stýrir námskeiðinu frá Mógilsá og þar er líka samankomið starfsfólk af Vestur- og Suðurlandi. Aðrir þátttakendur sitja á Þingeyri, í Bjarnarfirði á Ströndum, á Silfrastöðum í Skagafirði, á Akureyri, Egilsstöðum og Tumastöðum.
Skógræktin hefur tekið í notkun fjarfundarkerfið StarLeaf sem gerir kleift að halda ýmsa fundi, námskeið og fyrirlestra sem allt starfsfólk stofnunarinnar getur tekið þátt í án þess að eyða tíma, fé og fyrirhöfn í ferðalög. Framkvæmdaráð Skógræktarinnar heldur nú flesta fundi sína með þessu kerfi og með því hefur nú þegar sparast bæði tími og peningar sem ella hefðu farið í flugferðir. Fjarfundakerfið tengir því starfsfólkið betur saman, gefur færi á reglulegri fræðslu og endurmenntun, gerir auðveldara að halda ýmsa fundi og síðast en ekki síst fellur þetta vel að umhverfisstefnu Skógræktarinnar. Stofnunin vill stuðla að bindingu koltvísýrings með aukinni skógrækt en um leið leitast við að draga eins og kostur er úr losun vegna starfsemi sinnar.