Hér hafa nokkur gömul tré verið skilin eftir þegar skógurinn var felldur. Upp vex nýr skógur og á 5-…
Hér hafa nokkur gömul tré verið skilin eftir þegar skógurinn var felldur. Upp vex nýr skógur og á 5-10 árum nær hann kolefnisjafnvægi en eftir það binst meira kolefni en það sem losnar.

Þetta segir prófessor við Linnéuniversitetet sem talar á skógarviku Future Forests

Öflug skógrækt með öflugum skógarnytjum er jákvæð fyrir loftslagið. Jákvæð áhrif skógariðnaðarins í Svíþjóð gera að verkum að jafnmikið er bundið af koltvísýringi í Svíþjóð og það sem losnar af gróðurhúsalofttegundum í landinu. Ef framleiðsla skógariðnaðarins verður aukin verður kolefnisbókhald Svíþjóðar jákvætt.

Þessu heldur Johan Bergh fram. Hann er prófessor við háskólann Linnéuniversitetet og ætlar að ræða um þessi mál  fundi sem haldinn verður um loftslagsmál og framtíð skóganna 17. febrúar. Þá heldur Future Forests í Svíþjóð sérstaka skógarviku. Future Forests er sérstakt samvinnuverkefni sænska landbúnaðarháskólans SLU, háskólans í Umeå  og skógrannsóknarstofnunarinnar Skogforsk. Rætt er við Johan Bergh á vef SLU.

Yfirskrift fundarins er á sænsku Klimatet och framtidens skog – Styrning och skötsel som integrerar klimatnytta och klimatanpassning og hann verður haldinn við KSLA, konunglegu skógar- og landbúnaðarakademíuna í Stokkhólmi. Þar ætlar Bergh ásamt samstarfsfólki að greina frá niðurstöðum um hvernig mismunandi aðferðir við skógrækt og skógarnytjar hafa áhrif á kolefnisbindingu skógarins og efna til umræðu um niðurstöðurnar. En jafnvel þótt Bergh sé borubrattur hefur hann líka áhyggjur af þeirri umræðu sem fram fer um þessar mundir. Hún kyndi undir misklíð um þessi efni og skipi fólki að þarflausu í andstæðar fylkingar.

Nú síðast í janúar varð írafár á samfélagsmiðlinum Twitter þegar Anders Wijkman, talsmaður þverpólitíska umhverfisráðsins Miljöberedningen, lýsti því yfir og stóð fast á að rjóðurfelling væri stórskaðleg fyrir umhverfið. Johan Bergh er gáttaður á því að í þessari umræðu skuli fólk ekki halda sig betur en raun ber vitni við staðreyndir. Mikið sé um misskilning og rangfærslur í umræðunni. „Það væri uppbyggilegra fyrir umræðuna ef hún byggðist á þeirri vitneskju sem fyrir hendi er,“ segir hann.

Stormfallið eftir fellibylinn
Guðrúnu engin kolefnisbomba

Vitað er að við rjóðurfellingu eykst losun koltvísýrings á viðkomandi svæði. Eftir fellibylinn Guðrúnu heyrðust óttaraddir um að stormfallssvæðin sem hreinsuð voru yrðu nokkurs konar „kolefnisbomba“. Nú hafa sérfræðingar rannsakað afleiðingar stormfallsins og hreinsunar skemmdu svæðanna. Því er loksins hægt að meta hvort ótti manna var á rökum reistur. Þá kemur í ljós að nýi skógurinn sem farinn er að vaxa upp í stað þess fallna vex mjög hratt og mælingar sýna að hann bindur meiri koltvísýring en losnar frá honum. Kolefnissprengjan sprakk því ekki heldur þveröfugt - ef svo má segja.


„Sé skógur í Suður-Svíþjóð gjörfelldur verður hann koltvísýringshlutlaus strax eftir fimm til tíu ár. Þá er koltvísýringslbinding álíka mikil og koltvísýringslosun. Það sem eftir lifir lotunnar er skógurinn kolefnisjákvæður og verkar sem kolefnisgeymsla,“ segir Johan Bergh.

Annað sem oft er haldið fram í umræðunni er að betra sé að tína stök tré út úr skóginum en að rækta hann í lotum og gjörfella áður en ný lota hefst. Rannsóknir sem unnar hafa verið fyrir tilstilli Future Forests benda til þess að þessar tvær aðferðir hafi svipuð loftslagsáhrif, þ.e.a.s. þegar nývöxturinn er sambærilegur.

„Í þessu efni skiptir vöxturinn sköpum. Því meira sem skógurinn vex því meira eykst uppsöfnun kolefnis. Hér hafa skógareigendur möguleikana í hendi sér. Þeirra er að velja réttu trjátegundirnar, sjá til þess að endurnýjun skógarins takist vel og áburðargjöf í reitunum,“ undirstrikar Johan Bergh.

Með auknum vexti og betri nýtingu skógarins verður þýðing skóganna í loftslagssamhenginu enn meira. Greining Johans Berghs og samstarfsfólks hans hefur leitt í ljós að það hefur mikil áhrif að innleiða notkun viðar í stað annarra efna. Ef timbrið er notað til húsasmíða eða sem eldsneyti drögum við úr neikvæðum loftslagsáhrifum sementsframleiðslu og brennslu olíu og kola.

Bættar nytjar fyrir loftslagið

Enn er ónefnt nokkuð sem einnig heyrist gjarnan í umræðunni. Því er þá haldið fram að betra sé að láta skóginn standa óhreyfðan en að nýta hann.

„Þetta er algengur misskilingur sem bæði gætir hjá innlendum og erlendum umhverfissamtökum,“ segir Johan Bergh. „Mörg rök geta verið fyrir því að vernda gamlan skóg, til dæmis til að viðhalda líffjölbreytni. En loftslagsrök duga ekki í því efni.“


Þegar skógur eldist dregur úr vexti hans og á endanum verður hringrásin í skóginum að mestu stöðug. Álíka mörg tré drepast og þau sem vaxa upp í staðinn. Þannig losnar álíka mikið kolefni úr dauðum trjám og það sem binst í ungum. Þar með verður kolefnisbúskapurinn á núlli. Skógur verður að vaxa til þess að hann hafi jákvæð áhrif á kolefnisbúskapinn og þar með á loftslag jarðarinnar.

„Það er mikilvægt að líta á samanlögð áhrif allra þátta: aukna kolefnissöfnun í jarðvegi og í standandi trjám, timbur sem varðveitt er sem byggingarefni í mannvirkjum, mismunandi orkugjafa og áhrif þess þegar viður leysir af hólmi mengandi efni eins og kol og olíu eða önnur efni sem hafa áhrif á loftslagið. Ef aðeins er litið á einn þessara þátta en ekki heildarsamhengið er auðvelt að draga skakkar ályktanir. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því hversu mikið er um villandi innlegg í loftslagsumræðunni,“ að sögn Johans Berghs.

Og Johan hlakkar til áhugaverðrar rökræðu á loftslagsviku Future Forests í Svíþjóð.

„Mér finnst áhugavert að rökræða ýmsar spurningar um loftslagið og skóginn. Vonandi tekst okkur að breiða út vísindalega þekkingu til fólks þannig að það geti myndað sér skoðanir um hvers konar skógrækt við eigum að stunda í þágu loftslagsins,“ segir hann að lokum.

Þýðing og myndir: Pétur Halldórsson