Young spruce trees grow at a reforestation site in southern Iceland, September 14, 2017. Thomson Reu…
Young spruce trees grow at a reforestation site in southern Iceland, September 14, 2017. Thomson Reuters Foundation/Marcello Rossi

Thomson Reuters Foundation fjallar um skógrækt á Íslandi og loftslagsmál

Íslensk endursögn greinar eftir Marcello Rossi | @marcellorossi87 |
sem birtist í vefmiðli Thomson Reuters Foundation mánudaginn 25. desember 2017


Talsvert hefur verið fjallað um skógrækt á Íslandi í erlendum fjölmiðlum á árinu sem er að líða og enn á ný birtist hún í alþjóða­pressunni. Fréttamiðillinn Thomson Reuters Foundation birti á jóladag umfjöllun um skógrækt á Íslandi með viðtali við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra. Þar er rætt um það mikla verk sem nýskógrækt er í stóru en fámennu landi þar sem jafnframt sé við ágang búfjár að etja. Haft er eftir skógræktarstjóra að skógrækt sé einhver sársaukaminnsta aðgerðin gegn loftslagsbreytingum sem völ er á.

Greinin hefst á því að sagt er frá klukku­tíma göngu á líparítfjallið Bláhnjúk við Landmannalaugar. Fjallið sé tæplega þúsund metra hátt virkt eldfjall og af tind­inum megi á björtum dögum njóta útsýnis í allar áttir þar sem beri fyrir augu jökla og vindsorfnar lyngheiðar, eins og það er orðað.

Sláandi sé í allri þessari tæru fegurð á hálendi Suðurlands að þar skuli næstum hvergi sjást trjágróður. Því sé þó ekki um að kenna að landið sé of kalt til að skógar geti þrifist. Fornleifarannsóknir hafi leitt í ljóst að meira en fjórðungur landsins hafi verið viði vaxinn allt fram á níundu öld þegar víkingar námu land og tóku að höggva trén til að afla viðar og rýma til fyrir ræktun og beit. Nú sé hin framandi ásýnd landsins sem minnir á tunglið aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Skógleysinu fylgi hins vegar vandamál og því vilji margir Íslendingar breiða skóglendi landsins út á ný.

Nú er svo komið, segir í greininni, ekki síst á sunnanverðu landinu, að skógræktarsvæði séu farin að sjást hér og þar með blöndu trjátegunda, svo sem innlendu birki og innfluttu greni.

Yfirumsjón og eftirlit með nýskógræktinni hafi ríkisstofnunin Skógræktin sem einnig sjái um þjóðskóga landsins. Þröstur Eysteinsson skógræktarstóri sé ekki í nokkrum vafa um að jafnvel þótt ekki verði ræktaður skógur nema á litlum hluta landsins muni það hafa margvísleg góð áhrif.

„Á seinni tímum hefur gróðurleysið á sumum svæðum landsins gert að verkum að ekkert var til að halda í jarðveginn og því varð nánast ómögulegt að stunda þar landbúnað og beitarbúskap,“ segir Þröstur. „Ekki bætti úr skák annálaður næðingurinn sem átti sinn þátt í að landið blés upp.“

Aukið skóglendi gæti líka leitt til þess að loftslagsmarkmið Íslendinga yrðu þjóðinni minni efnahagsleg byrði en ella. Markið hefur verið sett á að draga úr nettólosun koltvísýrings um 50-75 prósent fram til ársins 2050 eins og stendur í stefnumörkun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Nú þegar er 85 prósenta allrar orku sem notuð er á Íslandi aflað innanlands með nýtingu sjálfbærra orkuauðlinda, aðallega vatnsafls og jarðvarma. Þetta er hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku í nokkru ríki heimsins eftir því sem haft er eftir Öskju Energy, óháðri vefgátt um orkumál við Norður-Atlantshaf og á norðurslóðum.

En losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði og samgöngum er enn mikil á Íslandi og hana þarf að minnka. Tré nýta koltvísýring sér til vaxtar og geta því hjálpað til við að jafna út hluta af þessum útblæstri.

„Skógrækt er einhver sársaukaminnsta aðgerðin gegn loftslagsbreytingum sem völ er á,“ segir Þröstur, „bæði vegna þess að þetta er ódýr leið og hún krefst þess ekki að fólk breyti hegðun sinni. Breytt hegðun er sársaukafull því fólk á erfitt með breytingar. Erfitt er að sannfæra fólk sem hefur vanið sig á að aka um á einkabílum að betra sé að ferðast í mannmörgum almenningsfarartækjum,“ bætir hann við.

Svipað megi segja um efnahagslífið. Þar sé hætt við samdrætti ef ætlunin er að draga úr útblæstri með því að draga úr framleiðslu og neyslu. „Engir stjórnmálamenn munu fallast á leiðir sem felast í því að draga úr atvinnu og þjóðar­tekjum því að þá hætta þeir á að verða ekki kosnir aftur,“ segir Þröstur.

Öðru máli gegni um skógrækt. „Þar þarf ekkert nema fjármagn og þetta fjármagn skilar sér aftur með tímanum og á endanum verður af því hagnaður. Allir hagnast á þessari leið,“ segir hann.

Þröstur segir líka kaldhæðni örlaganna að sennilega muni hlýnandi loftslag gera nýskógræktina auðveldari á Íslandi og tré muni geta vaxið hærra upp eftir fjallahlíðum en áður. Endurútbreiðsla skóglendis sé þó risastórt verkefni, jafn­vel þótt í ekki stærra landi sé.

Undanfarin ár hafa bæst við íslensku skógana um þrjár milljónir trjáplantna á ári og skóglendi hefur þar með verið breitt út á ný á um 123.000 hekturum lands. Samt sem áður þekja skógar enn ekki nema um tvö prósent alls landsins samkvæmt gögnum Skógræktarinnar.

„Markmið okkar er að klæða 2,5 prósent landsins ræktuðum skógi og að með náttúrlegri útbreiðslu muni skóglendi á endanum þekja tíu prósent landsins. Við verðum því að gróðursetja í 200.000 hektara í viðbót,“ segir skógræktarstjóri.


Lítið fjármagn, margt fé

Erfitt hefur reynst að finna fjármagnið til aðgerðanna. Framlög til skógræktar voru skorin niður eftir bankahrunið 2008 og hafa ekki skilað sér til baka síðan, að sögn Þrastar, og það þótt efnahagslífið á Íslandi hafi nú náð sér að fullu. Fyrir hrunið feng­ust árlega fjárveitingar sem dugðu til að gróðursetja sex milljónir trjáplantna árlega, tvöfalt meira en nú er.

„Skógrækt þarf að keppa um krónurnar við alla aðra þarflega hluti sem fólk vill nota skattpeningana í og þess vegna lítur út fyrir að framlög til skógræktar verði áfram einungis lítið brot af ríkisútgjöldunum,“ spáir Þröstur.

Hluti vandans sé hversu fámenn þjóðin er, ekki nema um 350.000 manns. Þar af leiðandi séu skattgreiðendur færri á hvern hektara lands en hjá flestum öðrum þjóðum. Að óbreyttu muni það taka Íslendinga 200 ár að rækta skóg á 2,5 prósentum landsins. „Jafnvel þótt við þrefölduðum gróðursetninguna frá því sem nú er tæki það okkur samt 70 ár,“ segir hann.

Enn er þó ekki öll sagan sögð.

„Veðráttan á Íslandi er mjög óútreiknanleg og aðstæður til skógræktar geta sveiflast þó nokkuð frá ári til árs. Þar með má búast við að trjávöxtur geti verið talsvert hægari hér en annars staðar á jörðinni,“ segir Ragnhildur Freysteins­dóttir, verkefnisstjóri hjá Skógræktarfélagi Íslands, sem einnig er rætt við í umfjöllun Thomson Reuters Foundation. Skógræktarfélag Íslands er regnhlífarfélag meira en sextíu skógræktarfélaga um allt land.

Og svo er líka margt sauðfé á Íslandi „sem er sólgið í litlar trjáplöntur eins og allir vita og getur því hindrað náttúrlega útbreiðslu trjágróðurs,“ segir Ragnhildur. „Það þýðir að víðast hvar þar sem ætlunin er að rækta skóg þarf að girða. Og það er dýrt,“ bætir hún við.

Skógræktarverkefni Íslendinga með tiltölulega hægvaxta trjátegundum hafa væntanlega lítil áhrif á nettólosun alls heimsins að sögn Christophers Martius, verkefnisstjóra loftslags-, orku- og lágkolvetnismála hjá CIFOR, alþjóðamiðstöð skógrannsóknarstofnana sem hefur höfuðstöðvar í Indónesíu. „Hins vegar yrðu slík verkefni Íslendinga alltaf tákn um samstöðu með öðrum þjóðum, samfélagi þjóðanna, og til marks um að Íslendingar vilji standa við markmiðin sem sett voru með Parísarsamkomulaginu,“ segir hann.

(Höfundur upphaflegu greinarinnar er Marcello Rossi undir ritstjórn Laurie Goering hjá Thomson Reuters Foundation, góðgerðararmi Thomson Reuters. Þar eru skrifaðar fréttir um mannúðarmál, loftslagsmál, sjálfbærnimál, réttindi kvenna, mansal og mannréttindi. Sjá nánar á vef: http://news.trust.org/climate)