(Morgunblaðið, 15/2 2004, aðsent efni)
VIÐ Íslendingar höfum þá sérstöðu að þekkja sögu okkar í aðalatriðum frá upphafi byggðar í landinu. Engin önnur þjóð mun búa yfir hliðstæðri þekkingu um sína heimahaga.
Naumast þarf um það að deila að ýmislegt hefur farið verr en skyldi í sambúð lands og þjóðar á þeim 11 öldum sem hún hefur staðið. Stundum var það íbúunum að kenna, en ekki alltaf. Óblíð náttúra lék þjóðina stundum svo hart að við útrýmingu lá og einnig lögðust drepsóttir á sömu sveif. En forfeður okkar fóru líka illa að ráði sínu gagnvart landinu; stundum vegna vanþekkingar og kæruleysis en oftar af hreinni neyð.
Öll þekkjum við þá staðhæfingu Ara fróða að við upphaf landnáms hafi Ísland verið viði vaxið milli fjalls og fjöru og umræðuna um það hvað valdið hefur hnignun gróðurs síðan þá.
Óþarft er að rifja hér upp hvernig harðindi náttúrunnar og búseta manna áttu í sameiningu sök á því að eyða skógunum, þar til lítið var eftir af þeim.
Oft hefur sauðkindinni verið legið á hálsi fyrir að hafa átt stóran þátt í þeirri raunasögu og auðvitað ekki að tilefnislausu. Á meðan vetrarbeit og útigangur var stundaður í landbúnaði, meira en nú er gert, hefur sauðfé eflaust valdið spjöllum á trjágróðri og hindrað endurvöxt þar sem búið var að fella skóg. Sjálfsagt getur sauðfé líka verið varasamt á uppblásturssvæðum, en hæpið er að líta svo á að það valdi uppblæstri og gróðureyðingu á grónu landi nema að annað komi til.
Þar sem gamall trjágróður og hrís lifði af dafnar það vel í friði fyrir búfénaði, þótt í fullri sambúð sé við hann. Fjarstæða mun að sauðfé, sem alið er á húsi vetrarlangt, m.a. vegna haustrúnings, leggist á trjágróður á sumrin, en vafalaust þarf þó að verja nýræktarsvæði fyrir beit.
Stundum verður þess vart að áhugafólk um skógrækt og landvernd telji nauðsynlegt að alfriða land fyrir búfé til að ná þar upp sem mestum gróðri og afstýra gróðureyðingu. Aðrir telja þó að þar sé um misskilning og öfgar að ræða, þegar gamalgróið land utan uppblásturssvæða á í hlut. Þeirri skoðun til stuðnings skal hér tilgreint dæmi sem margir þekktu áður en færri nú.
Breiðafjarðareyjar eru margar, eins og kunnugt er, og óteljandi í þeim skilningi að oft er erfitt að skilgreina hvað telja skuli sjálfstæða eyju. Stór eyjaklasi á norðanverðum firðinum kallast Vestureyjar, og mynduðu þær Flateyjarhrepp með allt að 400 íbúum þegar flest var, í byrjun síðustu aldar. Helmingur þeirra bjó í Flatey, sem var verslunar- og útgerðarstaður. Eins og aðrir á þeim tíma þurfti fólkið að halda búfé, kýr og kindur, en landrými var takmarkað. Beit á þurrlendi er þó víða kraftmikil, en einnig fjörugróður, og fénaður þar með frjósamur. Vetrarfóðrað fé í Vestureyjum mun hafa verið á að giska hálft annað þúsund, en á fjórða þúsund að dilkum meðtöldum á sumrin. Féð var flutt til hagagöngu á fastalandi á vorin en til baka eftir göngur á haustin. Því, sem ekki var slátrað, var dreift í eyjarnar til að nýta beitina, fram undir jól, en þá tekið á hús. Meðan fólkið var flest má segja að slægjur væru gernýttar á sumrin, ekki bara á túnum byggðu eyjanna heldur einnig í úteyjum. Þær eru margar frjósamar af áburði sjófugla og þörungagróðri sem berst á land og rotnar þar niður. Ekki var þó fyrirhafnarlaust að nýta þar slægjur og flytja heyið heim. En sagt var að þar sem þörfin var mest hafi nýtnir bændur látið skera með hníf grastoppana sem ljárinn náði ekki, á útgröfnum lundabölum og í grýttu landi. Þegar svo fénaður kom á þetta land á haustin hafði það samt nóg að bíta. Aldrei náðist að slá allt, kjarngóð há var komin á frjósömustu blettina. Svokallaðar sjóargrundir, sem sjór fellur yfir á stórum flæðum, eru þá þaktar þéttum kjarnmiklum gróðri, en ekki síst skal nefna fjörubeitina, þangið, þarann og sölin. Því er ekki að leyna að oft munu þessi landgæði hafa verið fullnýtt á hverju ári; hvert grasstrá nagað ofan í rót árlega undir vetur, svo að segja. Ef eitthvað er til sem heitir ofbeit þá var það þarna á þessum tíma. Samt hefur aldrei myndast þar gróðurlaus blettur, þar sem einhvern jarðvegsvott er að finna, en auðvitað hefur þetta þó haft takmarkandi áhrif á gróður, en ekki alltaf verið til bóta.
Nú þegar ekki er lengur borinn ljár í gras og ekki ber lengur grasbítur "snoppu að blómsturtopp" gefur sums staðar heldur betur á að líta. Á þýfðu landi, sem þarna er algengast, og raki er nægur, gerist það gjarnan að þúfurnar blásast út vegna sinuflóka og verða að svampkenndum óskapnaði. Milli þeirra verða áður gróðursælar lautir að djúpum gróðurlausum skvompum og má segja að slíkt land geti orðið illfært mönnum og skepnum yfirferðar og ónothæft fyrir æðarfugl sem varpland.
Þá er gróðurfarsbreyting oft alvarlegt vandamál í frjósömum eyjum, þegar hvönnin hreinlega leggur þær undir sig og drepur grasið. Gerir áður frjósamar "gresjur" að flagi með trénuðum hvannanjólum, nema yfir sumartímann þegar hvönnin stendur í blóma. Sú gróska spillir æðarvarpi, enda finnast ekki hreiður í þeim "skógi". Áhrifaríkasta ráðið er að hafa einhvern hóp kinda í viðkomandi eyju, sem útrýmir hvönninni á nokkrum árum. Kemur sem sagt í veg fyrir að hún sái sér og endurnýist þannig. Í því tilfelli nýtist sauðfjárbeitin til að stuðla að æskilegum gróðri en hindra óæskilegan. Ekki öfugt, eins og vissulega getur gerst annars staðar á ofbeittu landi.
Vegna þeirrar gömlu reynslu Breiðfirðinga, sem hér hefur verið reynt að lýsa, eru þeir tæplega ginnkeyptir fyrir þeim boðskap sem stundum heyrist að búfénaður geti valdið gróðureyðingu á gamalgrónu haglendi, með ofbeit. Hann getur vissulega takmarkað grasvöxt og verið óæskilegur af þeim sökum, en að hann geti gengið af honum dauðum mun vera gamall og furðu lífseigur misskilningur.
Það er mjög ánægjulegt til þess að vita hve margir þéttbýlisbúar hafa einlægan áhuga á að varðveita gróður landsins og auka hann, endurheimta það sem glatast hefur og "rækta nýjan skóg". Til þess þarf hreint ekki að afnema búfjárhald, þó að í mörgum tilfellum þurfi að gæta þar hófs sem á öðrum sviðum.
Fyrir hálfri öld voru landsmenn komnir með stórvirk tæki til að ræsa fram mýrar og votlendi og breyta í tún og verðmæt gróðurlönd. Síðar áttuðu menn sig á því að þarna var um mikla náttúruröskun að ræða sem bitnaði á fuglalífi meðal annars. Háværar kröfur voru þá gerðar um að hætta þeim leik og helst að moka ofan í skurðina aftur. Eðlilegt sýnist vera að taka tillit til beggja sjónarmiða; varðveita hluta votlendisins, fyrir þann gróður og það dýralíf sem þar hefur þrifist og aðlagast, en breyta öðru í valllendi, tún og jafnvel akra!
Íslensk náttúra hefur vafalaust efni á því. Og hún hefur líka áreiðanlega efni á því að ala þann búfénað, sem fyrir er í landinu, ef rétt er að málum staðið, án allrar skerðingar landkosta.
Eðlilegt sýnist að við séum sjálfum okkur nóg um þær búfjárafurðir sem við þurfum á að halda og hér er hægt að framleiða; einnig grænmeti og korn. Vonandi trjávið þegar fram í sækir og að við höldum áfram að nýta hin fjölbreyttu "hlunnindi" sem landið hefur upp á að bjóða, og gerum það af gætni og fyrirhyggju.
Og þótt það sé líklega ekki í takt við tíðaranda og alþjóðavæðingu mættum við gjarnan hugsa stundum til þess sem skáldið sagði:
.... en þú átt að muna
alla tilveruna
að þetta land á þig.
eftir Eystein G. Gíslason