Miklar breytingar verða á fuglalífi þegar skógur er ræktaður á landi sem áður var skóglaust. Þetta eru meginniðurstöður rannsókna sem Ólafur K. Nielsen fuglafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands og samstarfsmenn hans hafa gert. Þessar fuglarannsóknir eru hluti af stærra verkefni sem heitir SKÓGVIST og er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skógræktar ríkisins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.


Með SKÓGVIST er reynt að lýsa þeim breytingum sem verða í vistkerfinu þegar skógur vex upp á skóglausu landi og þá er horft bæði til flórunnar, fánunnar og sveppa. Ólafur skoðaði í sinni rannsókn einkum þéttleika fugla, tegundarsamsetningu, fjölbreytileika fánunnar og hvaðan landnemar lerkiskóganna komu. Hann bar saman opið land, gamla íslenska birkiskóga og lerkiskóga á mismunandi aldursstigum. Um var að ræða lerkiskóga sem hafði verið plantað fyrir 5-7 árum, 15-20 árum og fyrir um 40 árum síðan. Rannsóknin var gerð austur á Héraði. Markmiðið var að fá upplýsingar um breytingar sem verða á þessum fyrstu áratugum framvindunnar.

Ólafur sagði að þéttleiki varpfugla væri meiri í skóglendi en á opnu landi. Ekki væri mikill munur á mólendi og yngsta lerkiskóginum, en þéttleikinn fuglanna væri meiri þegar skógurinn væri orðinn eldri. Ólafur sagði að það væri hins vegar ljóst að sumar fuglategundir væru eingöngu bundnar við opið land og aðrar væru eingöngu í skógum. Auk þess væru nokkrar tegundir sem héldu sig jafnt í opnu landi og í skógum, aðallega hrossagaukur og þúfutittlingur.

Breytingarnar ganga hratt yfir
"Þessi framvinda gengur tiltölulega hratt fyrir sig. Eftir um 15 ár eru þær tegundir sem eru bundnar við opin svæði algerlega horfnar. Þetta á við um alla vaðfugla nema hrossagauk og spörfugla sem eru bundnir við opin svæði, eins og steindepill og snjótittlingur. Þá hafa þessir svokölluðu skógarfuglar tekið við auk þúfutittlings og hrossagauks sem þola þessi umskipti. Aðrir fuglar aðlagast ekki þessari breytingu."
Ólafur sagði að það væru aðallega sex fuglategundir sem væru áberandi í lerkiskógunum á Austurlandi, þar af fimm sem væru gamalgrónir varpfuglar á Íslandi, skógarþröstur, auðnutittlingur, músarrindill, þúfutittlingur og hrossagaukur. Aðalbúsvæði þeirra þriggja sem nefndar voru fyrst væri gamli birkiskógurinn. "Síðan er einn nýr landnemi sem kemur frá Norðvestur-Evrópu, en það er glókollur sem er barrskógafugl.

Glókollur hefur breiðst út alveg ótrúlega hratt
Dæmið með glókollinn sýnir hvað þessar breytingar geta gengið hratt yfir. Það var í október 1995 sem stór ganga glókolla kom til landsins og síðan hefur hann verið hér og dreifst ótrúlega hratt um landið. Mjög víða er hann orðinn áberandi fugl í bæði greni- og lerkiteigum. Þetta er tegund sem var bara þekkt hér áður fyrr sem flækingur, en á innan við 10 árum hefur hún dreifst um landið og finnst nú verpandi á Austurlandi, Suðurlandi, Suðvesturlandi, Vesturlandi og MiðNorðurlandi."

Frétt Morgunblaðsins, 29. febrúar 2004, "Miklar breytingar verða á fuglalífi með skógrækt"