Nýleg úttekt á 13 ára gamalli kvæmatilraun fjallaþins bendir til að með réttu vali á kvæmi, ásamt úrvali og kynbótum, geti þessi tegund leyst af hólmi innflutning norðmannsþins með tíð og tíma. Styrkleiki þessarar framleiðslu er að hér á landi eru ekki þekktir sjúkdómar og sníkjudýr sem skemma framleiðsluna. Nú eru hins vegar blikur á lofti þar sem upp er kominn alvarlegur átusjúkdómur á þini í Danmörku og Noregi. Sjúkdómurinn virðist einkum alvarlegur á þeim kvæmum sem koma best út í áðurnefndri kvæmatilraun. Eins og flestum er kunnugt er norðmannsþinur langalgengasta jólatréð á íslenskum heimilum.

Þegar reglugerð um inn- og útflutning á plöntum tók gildi árið 1990 var ákveðið að hafa hann ekki á bannlista eins og er um aðrar ættkvíslir barrtrjáa í ræktun. Ákvörðunin var tekin með hliðsjón af því að þinur væri ekki mikilvægt skógartré hérlendis og engir alvarlegir skaðvaldar fylgdu honum. Nú er verið að endurskoða þessa reglugerð. Spurningin er hvort ekki ber að banna innflutning þins til að koma í veg fyrir að átusjúkdómurinn berist hingað og ógni framtíðarræktun á fjallaþini hérlendis fyrir íslenskan jólatrjáamarkað, a.m.k. þar til í ljós kemur hversu alvarlegur sjúkdómurinn verður á Norðurlöndunum. Með áframhaldandi innflutningi á þin til Íslands er það ekki spurning hvort heldur hvenær sjúkdómurinn skýtur upp kollinum í íslenskum þinskógum.

 

Texti: Brynjar Skúlason og Halldór Sverrisson
Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson (Magnús og Helgi skoða fjallaþin í Noregi)