Vikuna 10.- 14. maí siðast liðinn fóru tveir starfsmenn Mógilsár til Tékklands. Þetta voru þeir Arnór Snorrason og Bjarki Þór Kjartansson en þeir eru báðir að vinna að verkefninu Íslensk Skógarúttekt. Í því verkefni er unnið af landsúttekt á stærð og gerð skóga og munu vettvangsmælingar hefjast nú í haust.

Tilgangur ferðarinnar var að fá þjálfun í notkun trjámælingatækis sem Mógilsá er að kaupa. Til þeirra kaupa fékkst styrkur úr tækjasjóði Rannís til að greiða helming tækjaverðsins.

Trjámælingatækið heitir Field-Map og samanstendur af sex meginhlutum:

1.      hugbúnaði sem heldur utan um öll mælimerki sem tækið nemur,

2.      útitölvu fyrir hugbúnaðinn,

3.      lasergeislamæli sem mælir með mikilli nákvæmni fjarlægðir og  trjáhæðir

4.      stafrænum áttavita en hann ásamt lasergeislamælinum mælir með mikilli nákvæmni staðsetningu trjánna á hverjum mælifleti

5.      stafrænu skíðmáli til að mæla þvermál trjánna

6.      GPS-staðsetningartæki

Með tilkomu þessa tækis munu trjámælingar vegna landsúttektar ganga hraðar fyrir sig og verða öruggari og nákvæmari.

Allar skriftir á vettvangi heyra sögunni til og er það mikill léttir að losna við að reyna skrifa á trosnuð eyðublöð í rigningu, hvað þá að reyna að skilja það sem á blaðinu stendur þegar heim er komið. Innsláttur gagna leggst einnig af.

Á námskeiðinu var verið að kenna á hugbúnaðinn. Hvernig hann er byggður upp og hvernig á að hefja ný mæliverkefni. Einnig var farið á vettvang í Tékkneskan skóg og lært að nota mælitækið við raunverulegar aðstæður. Þar fengum við að spreyta okkur á að mæla fallegan blandskóg af rauðgreni, skógarfuru, evrópulerki, beyki og eik sem var um 25 til 30 hár.

 

Á myndinni er Bjarki að munda tækið. Hjá honum stendur aðalkennari okkar á námskeiðinu, skógfræðingurinn Radek Russ.