Í Morgunblaðinu í dag  er sagt frá rannsókn á afstöðu Íslendinga til umhverfis- og þróunarmála. Rannsóknin byggir á viðhorfskönnun sem Þorvarður Árnason náttúrufræðingur og verkefnisstjóri hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og samstarfsfólk gerði á umhverfisvitund Íslendinga á vormánuðum 2003.

Í könnuninni var m.a. spurt Hver þriggja eftirtalinna atriða ættu, að þínu mati, að vera mikilvægustu viðfangsefni íslenskra stjórnvalda á sviði umhverfismála? Merktu mikilvægasta atriðið með tölunni 1, það næst mikilvægasta með tölunni 2 og það þriðja mikilvægasta með tölunni 3. Spyrjendum var gefinn kostur á að velja á milli eftirfarandi svarmöguleika: Verndun fiskistofna; verndun ósnortinnar náttúru; stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar; minni losun gróðurhúsalofttegunda; aukin endurvinnsla á sorpi; ræktun skóga og minni mengun vegna bílaumferðar.

Eins og vænta má hjá íslensku þjóðinni, sem lengi hefur byggt afkomu sína á sjávarútvegi, taldi stærsti hópur svarenda verndun fiskistofna?  mikilvægasta viðfangsefnið; 68,9% svarenda töldu hana vera það mikilvægasta, næst mikilvægasta eða þriðja mikilvægasta. Hins vegar var tiltölulega lítill munur á afstöðu Íslendinga til mikilvægis annarra viðfangsefna. Ríflega þriðjungur (34,3%) taldi ræktun skóga mikilvægast, næst mikilvægast eða þriðja mikilvægasta viðfangsefnið í umhverfismálum.

Þess verður auðvitað að geta að aðrir svarmöguleikar, svo sem stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar og minni losun gróðurhúsalofttegunda eru viðfangsefni sem eru nátengd og jafnvel í mörgum tilvikum merkingarlega óaðskiljanleg viðfangsefninu ræktun skóga og gæti þetta haft áhrif í þá átt að dreifa atkvæðum skógræktarsinnaðs fólks meðal íslensku þjóðarinnar.

Heimild: Morgunblaðið, 15. febrúar 2004, bls. 10-11, Stuðningur við umhverfisvernd minnkar

Aðalsteinn Sigurgeirsson