Fyrsti verksamningurinn um grisjun hér á landi, sem gerður er í kjölfar útboðs, var undirritaður á Hallormsstað í gær. Um er að ræða samning um grisjun á 3.7 ha. í landi Skógræktar ríkisins á Hallormsstað. Tilboð í verkið voru opnuð á mánudag, en alls bárust þrjú tilboð.

Jón Þór Þorvarðarson bauð kr. 699.000.-, Oddur Sigfússon, Friðjón K. Þórarinsson, Einar Ó. Rúnarsson og Eiríkur E. Sigfússon, buðu kr. 656.984.- og Helgi Bragason bauð kr. 652.380.-. Að auki gerði Helgi frávikstilboð í grisjun og útdrátt á grisjunarefninu að slóðum og jöðrum svæðisins. Allar tölur eru með virðisaukaskatti.

Ákveðið var að ganga að frávikstilboði Helga Bragasonar um grisjun og útdrátt, að upphæð kr. 845.604.-. Þegar hefur verið gengið frá samningi við Helga, sem áætlar verklok 15. apríl. Heildarkostnaður grisjunar og útdráttar, miðað við þennan samning, er kr. 228.541.- með vsk. pr. ha. 

Þessi samningur markar tímamót í sögu íslenskrar skógræktar, þar sem þetta er í fyrsta sinn sem grisjun er boðin út hér á landi. Allir þeir sem buðu í verkið eru bændur á Fljótsdalshéraði, en útboð á grisjun skapar atvinnutækifæri fyrir bændur, sem og fleiri vel tækjum búna menn. Því eru þetta sömuleiðis nokkur tímamót hvað það varðar, en viðbúið að grisjun muni aukast verulega á komandi árum.