Með smíði stórhýsa úr timbri skapast margvíslegir möguleikar fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Yfirburði…
Með smíði stórhýsa úr timbri skapast margvíslegir möguleikar fyrir bæði fólk og fyrirtæki. Yfirburðir slíkra húsa eru miklir á mælikvarða umhverfisins.

Getur verið hvort sem er, íbúðar- eða atvinnuhúsnæði

Nýstárleg sjö hæða timburbygging í Amster­dam í Hollandi hlaut titilinn besta bygging ársins 2016 þegar verðlaunin World Architechture News Residential voru veitt. Byggingin er rúmgóð og hátt til lofts á hverri hæð. Auðvelt er að innrétta hana bæði sem atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Sagt er frá þessu á vefnum treehugger.com.

Allt fólk ætti að venja sig á að faðma að sér tré annað slagið. Þessi einfalda athöfn myndar mjög sérstaka tengingu við trén og þau verða enn verðmætari fyrir vikið. Engin tilviljun er að til hafi orðið eska hugtakið treehugger. Fólk hefur löngu áttað sig á því að bein snerting við tré og nálægð við þau eykur tilfinningu okkar fyrir því hvað tré eru merkilegar lífverur. Hvernig best sé að íslenska hugtakið er annar handleggur. Við gætum talað um trjáknús og kallað okkur trjáknúsara sem höfum uppgötvað dásemdir líkamlegrar snertingar við tré.

Víðari merking þess að vera trjáknúsari er að hafa umhyggju fyirr umhverfinu og áhyggjur af ástandi þess. Vart er til mikilvægara viðfangsefni í umhverfismálum um þessar mundir en loftslagsmálin. Í þeim efnum eru tré í aðalhlutverki. Fjölga þarf trjám á jörðinni til að binda kolefni, efla gróðurkerfi jarðarinnar, draga úr jarðvegseyðingu og losun kol­tvísýrings úr jarðvegi og fleira og fleira. Sömuleiðis þarf að rækta tré til þess að sjá mannkyni fyrir bæði endurnýjan­legri orku og ýmsum hráefnum, meðal annars til húsbygginga.

Sífellt berast fregnir af nýjum afrekum á sviði húsbygginga úr timbri. Stórhýsi hafa hingað til verið reist að mestu úr stein­steypu og stáli en stöðugar framfarir í gerð byggingareinnga úr límtré hafa gjörbreytt möguleikum þeirra sem vilja leysa stálið og steinsteypuna af hólmi og nota í staðinn sjálfbært og endurnýjanlegt hráefni. Timbur er framleitt úr trjám sem hafa bundið kol­tvísýring.

Kolefnisfótspor timburvinnslu er lítið miðað við framleiðslu á stáli og stein­steypu. Það timbur sem notað er í hús­bygg­ingar geymir í sér koltvísýringinn svo lengi sem húsið stendur. Þegar húsið er rifið í fyllingu tímans má nota timbrið aftur, til dæmis sem efnivið í nýjar byggingar, hráefni í aðra framleiðslu eða sem orkugjafa.

En aftur að trjáknúsi. Vefurinn trehugger.com sagði sem sagt frá því í gær að sjö hæða timburbygging í iðnaðarhverfi í Amsterdam-borg hefði verið útnefnd besta bygging ársins þegar fréttamiðillinn World Architechture News veitti verðlaun í flokki íbúðarhúsa fyrir árið 2016.

Byggingin kallast Patch22 og er hæsta timburbygging sem reist hefur verið í Hollandi fram að þessu. Hún er um 30 metra há og hönnuður hennar heitir Tom Frantzen. Burðarvirki og gólf eru úr timbri og það gerir til dæmis að verkum að hægt er að hafa hátt til lofts á hverri hæð. Bilið frá gólfi einnar hæðar upp á gólf þeirrar næstu er fjórir metrar. Burðarvirki byggingarinnar er líka hannað með þeim hætti að auðvelt er að breyta byggingunni úr íbúðarhúsnæði í atvinnuhúsnæði eða öfugt. Þessi kostur var meðal þess sem réð úrslitum um að byggingin var útnefnd besta bygging árins 2016.

Hugmyndin er sú að reisa megi bygginguna án þess að endanlega sé ákveðið hvernig húsnæðið verði innréttað og notað. Taka má upp gólf til að komast að lögnum ef einhverju þarf að breyta. Gólfin hafa líka mjög mikið burðarþol, tvöfalt meira en venjulegt er í sambærilegum byggingum. Brunavarnarskilmálum var fullnægt með því að hafa alla burðarviði hússins sverari en þörf er á til þess eins að halda húsinu uppi. Burðarvirkið getur því brunnið í tvo klukkutíma án þess að það missi burðarþol. Með því að reisa stórhýsi úr timbri getur fólk notið allra þeirra kosta sem timburhúsum fylgja svo sem þægilegs andrúmslofts og kyrrðar.

Ekki er það þó svo að byggingin í Amster­dam sé eingöngu úr timbri. Stálbitar eru notaðir í gólfin sem gerir kleift að sleppa við súlur. Einnig eru gólfin klædd með stein­steypuefni. Magn stáls og steinsteypu í húsinu er þó að sjálfsögðu aðeins brot af því sem væri ef þessi efni væru aðal­byggingar­efni hússins.

Eins og fram kemur í frétt um bygginguna á treehugger.com er hún að hluta til afkvæmi hrunsins sem varð á fasteignamarkaðnum í Amsterdam 2009 í kjölfar efnahags­hruns­ins. Hönnuðinum Tom Frantzen og sam­starfs­fólki hans þótti eftir hrunið ófært að halda sínu gamla striki við að hanna venjuleg hús fyrir venjulegt fólk. Þau ákváðu í staðinn að ráðast í sérstakt verkefni fyrir sérstakt fólk, óvenju rúmgóðar hæðir fyrir fólk til að vinna eða búa í, gerðar úr tré með mjög sveigjan­legum gólfum og að sjálfsögðu eins sjálfbært hús og mögulegt væri. Auk þess að vera að mestu úr timbri er bygg­ingin með kurlviðarkyndingu og á þaki hennar eru sólarsellur sem framleiða rafmagn.

Bændablaðið sagði í síðustu viku frá fótboltaleikvangi sem áformað er að reisa fyrir félagið Forest Green Rovers FC í enska bænum Stroud á Englandi. Leikvangurinn verður reistur úr timbri sem vottað er að fengið sé úr sjálfbærri skógrækt. Þetta er ásamt verðlaunabyggingunni í Amsterdam gott dæmi um þá miklu þróun sem nú er í gangi í timburbyggingatækni. Gaman verður að fylgjast með því áfram. Frekari tíðindi af timburbyggingum á nýliðnu ári má sjá á vef trjáknúsara, treehugger.com:

Texti: Pétur Halldórsson