Blandaður skógur í Noregi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Blandaður skógur í Noregi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Pistlahöfundur norska blaðsins Nationen um efnahagsmál, skógrækt og landnýtingu bendir á að binda megi kolefni með mun ódýrari hætti í skógi en með fyrirhugaðri niðurdælingu í gamlar olíulindir í Norðursjó. Hann segir kosta 50-100 norskar krónur að binda hvert tonn af koltvísýringi með skógrækt en að lágmarki 200-1700 krónur með niðurdælingunni.

Norska ríkið hefur nú uppi stór áform um niðurdælingu á CO2 í jarðlög í aflögðum olíulindum í Norðursjó. Alls er gert ráð fyrir að verkefnið muni kosta 17 milljarða norskra króna sem nemur ríflega 250 milljörðum íslenskra króna. Í grein sem birtist 7. október í Nationen bendir pistlahöfundurinn Hans Bårdsgård á aðra og mun ódýrari leið til að losna við kolefni úr andrúmsloftinu, skógrækt. Nationen er dagblað sem einkum fjallar um málefni bænda og dreifbýlis.

Skjámynd af vef NationenÆtlunin er að leggja grunninn að niðurdælingarverkefni Norðmanna í Norðursjó á næsta ári. Verkefnið hefur fengið heitið Langskip og var kynnt á blaðamannafundi ráðherra í norsku ríkisstjórninni 21. september. Þar kom fram að undirbúningskostnaður yrði 2,7 milljarðar norskra króna en í heild myndi norska ríkið leggja til 17. milljarða. Þetta segir Hans Bårdsgård að sé dýr kolefnisbinding miðað við það sem þarf til að binda með aðferðum lífríkisins.

Hann bendir á að fyrir liggi tilbúnar áætlanir í norska skógargeiranum um verulega aukna bindingu í norskum skógum með nýskógrækt, áburðargjöf á eldri skóga og plöntukynbótum. Ráðherra landbúnaðar- og matvælamála í Noregi, Olaut Bollestad, hafi líka nýlega í þessu sama blaði lýst skógrækt sem einni ódýrustu leiðinni til að binda kolefni og að kolefnisbinding í skógi skuli verða forgangsmál á árinu 2021. Þrátt fyrir þetta verði aukning til skógræktarmála frá norska ríkinu einungis 4,5 milljónir norskra króna á næsta ári. Milljarðar eiga hins vegar að fara í niðurdælingarverkefnið í Norðursjónum.

Það lítur nefnilega út fyrir að forgangsmálið sé alls ekki skóginum heldur á botni Norðursjávar, eins og pistlahöfundurinn bendir á. Ef Langskip yrði einungis innanlandsverkefni myndi binding hvers tonns CO2 á botni Norðursjávar kosta milli 4700 og 1900 norskar krónur, eða allt að 28.000 íslenskar, samkvæmt útreikningum sem Anders Lie Brenna hefur lagt fram, ritstjóri EnerWe sem er vefmiðill norska orkugeirans. Og jafnvel þótt önnur lönd stæðu í röð til að fá að dæla sínum koltvísýringi niður í gömlu norsku olíulindirnar, sem fátt virðist þó benda til, er áætlað að kostnaður við hvert bundið tonn færi ekki niður fyrir 200-1700 norskar krónur. Möguleg aukin binding með skógrækt í Noregi séu 3,7 milljónir tonna árlega með þrautreyndum aðferðum. Möguleg árleg binding Langskips-verkefnisins sé 5 milljónir tonna með lítt reyndum aðferðum.

Hann tekur reyndar fram að þessar tölur megi ekki túlka sem svo að Langskip sé slæmt verkefni. Stærð þess verkefnis og þróun nýrrar tækni geti haft mikla þýðingu. Auk þess muni Langskip fjarlægja koltvísýringinn strax úr lofthjúpnum en í skóginum gerist það á lengri tíma. Hins vegar sýni tölurnar svart á hvítu hversu vanmetinn skógurinn sé sem bindingartæki. Nú þegar binda norskir skógar helminginn af allri losun Norðmanna á hverju ári. Þingið hafi beðið ríkisstjórnina um aukið fé til bindingar með skógrækt en leita þurfi aftur til daga rauðgrænu ríkisstjórnarinnar til að finna teljandi aukningu til þeirra mála.

Og Hans Bårdsgård vitnar til orða Ole André Myhrvolds sem situr í orku- og umhverfisnefnd norska stórþingsins fyrir norska miðflokkinn sem segir að tími sé löngu kominn til að Norðmenn nýti sér ódýrustu loftslagslausn sína. Í lok pistilsins veltir Bårdsgård því upp að sjálfsagt séu risastórir olíuborpallar og tankskip í úfnum Norðursjónum stórfenglegri í augum stjórnmálamannanna en litlar greniplöntur og árhringir sem mælast í millimetrum. „En við eigum tíu milljarða trjáa,“ bendir hann á og vitnar í texta eftir norsku rokkstjörnunnar Anne Grete Preus sem lést í fyrra: „Lágt og lítið hefur meiri kraft en mikið, fullt og nóg.“

Snúið og sett á skogur.is: Pétur Halldórsson