Vistvænar tölvur

Ert þú búin að fá leið á drapplituðu tölvunni þinni?  Sænskt fyrirtæki auglýsir nú vistvæna tölvuskjái og lyklaborð framleiddum úr viði.  Markmiðið er að draga úr notkun plasts og lífga upp á umhverfi skrifstofunnar. 

Á árunum 2002-3 voru seldar 45 milljón nýjar einkatölvur í Bandaríkjunum.  Flestar enda þær síðan sem landfylling á ruslahaug og frá þeim stafar mengun.  Í tölvum er að finna mengandi efni sem geta haft slæm áhrif á líkamsvefi manna og dýra þegar þau komast í samband við umhverfið.

Fyrirtækið sem framleiðir tölvuhluti úr timbri heitir Swedx.  Það hefur framleitt þúsundir hluta frá því á síðasta ári.  15 tommu flatur tölvuskjár kostar 35. þúsund krónur, lyklaborð 4400 krónur og viðarmús 3500 krónur.  Þetta verð er um það bil 30% hærra en sömu hlutir kosta úr plasti.  Stjórnendur Swedx segja áhuga á þessari framleiðslu fari vaxandi og að önnur fyrirtæki áformi að hefja framleiðslu. 

Þrátt fyrir að þessir tölvuhlutir yrðu framleiddir úr viði í stórum stíl, er ekki um neina töfraaðgerð að ræða, vegna þess að margir aðrir mengandi hlutar eru í tölvum, t.d. í örgjörvum.  Ýmislegt er áformað sem draga á úr mengandi áhrifum frá tölvum.  Evrópusambandið er að semja lög sem leggur framleiðendum rafeindatækja þær skyldur á herðar að finna upp leiðir til að endurvinna efni frá ónýtum tölvum.  Með þessum lögum verður gerð krafa um að hætt verði að nota mest mengandi efnin sem nú eru í notkun.  Nokkur ríki Bandaríkjanna hafa bannað tölvuskjái í landfyllingum. 


Heimild:  Nature News service / Macmillan magazines Ltd. 2004

Sjá vefslóð:  http://www.nature.com/nsu/040412/040412-10.html