Skógræktarfélag Íslands útnefnir alaskaösp (Populus balsamifera ssp. trichocarpa) í garðinum á Freyshólum á Völlum Fljótsdalshéraði Tré ársins 2013 við hátíðlega athöfn, sunnudaginn 18. ágúst kl. 14. Útnefningin er tileinkuð áttræðisafmæli bræðranna Baldurs og Braga Jónssona frá Freyshólum. 

Baldur og Bragi hófu störf hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað tvítugir að aldri þar sem þeir störfuðu alla sína starfsævi, samfellt í 50 ár, allt til ársins 2003. Fyrir fimmtíu árum gróðursettu þeir alaskaöspina í garðinn við Freyshólabæinn. Tréð sem er nú rúmlega 17 metra hátt og tæpir tveir metrar að ummáli ber ævistarfi þeirra og ástríðu þeirra bræðra fyrir skógrækt fagurt vitni. Þá er skógurinn ofan bæjarins á Freyshólum verk þeirra bræðra.

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp við athöfnina. Boðið verður upp á tónlistaratriði og veitingar. Allir eru velkomnir.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.


Mynd: Jóhannes Frank Jóhannesson