Jón Geir Pétursson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands, hefur vakið athygli á því að skógrækt kunni að koma að gagni í baráttunni við þann skaðvald, sem er svifryk í höfuðborginni. Mikil notkun nagladekkja ræður mestu um svifrykið, þótt aðrar orsakir komi þar einnig við sögu. Svifrykið getur haft skaðleg áhrif á heilsu fólks, ekki sízt þeirra sem eru með öndunarfæra- og lungnasjúkdóma.

Í samtali við Morgunblaðið í gær bendir Jón Geir á að ein leið til að draga úr rykinu sé að gróðursetja tré við umferðargötur. Tré geti tekið upp svifryksagnir, auk þess sem þær setjist á tré og lauf. Öll tré koma þannig að gagni, vilji menn draga úr svifryksmengun, en sígræn barrtré koma að beztum notum, eðli málsins samkvæmt þar sem þau eru græn á veturna þegar svifrykið er mest.

"Þau virka eins og greiður, ekki síst þegar þau standa nærri umferðaræðunum, og geta veitt í sig óhemjumikið af svifryki," segir Jón Geir.

Vakin var athygli á skoðunum Jóns Geirs á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar. Auðvitað stendur það engum nær en borginni og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu að fara eftir þessum ábendingum. Raunar má undrum sæta að ekki hafi fyrir löngu verið mörkuð sú stefna að planta trjám meðfram helztu umferðargötum, þótt ekki sé nema vegna þess að það myndi mjög fegra ásýnd borgarinnar. Í mörgum erlendum borgum er það reglan að planta trjám meðfram fjölförnum götum. Sama regla ætti auðvitað að eiga við hér, enda víða berangurslegt við helztu götur borgarinnar.

Það er ekki erfitt að rækta myndarleg tré meðfram umferðargötum. Það sýnir sú takmarkaða reynsla, sem er af slíku á höfuðborgarsvæðinu, t.d. á milli Miklubrautar og Skaftahlíðar, meðfram neðri hluta Kringlumýrarbrautar, meðfram Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ og víðar. Við Skaftahlíðina og víðar gegnir trjágróðurinn líka hlutverki hljóðmanar og er mun fegurri en ýmsar aðrar tilraunir, hannaðar af sérfræðingum, sem gerðar hafa verið til að koma í veg fyrir að umferðarhávaði berist inn í íbúðarhverfi. Jón Geir Pétursson bendir á að trjágróðurinn myndi líka skjól og komi þannig í veg fyrir að svifrykið þyrlist upp – fyrir utan annað gagn, sem hafa má af skjóli í þessu vindblásna landi. En auðvitað tekur tíma að rækta upp slíkan gróðurvegg.

Skógrækt hefur áhrif á umhverfi okkar, heilsu og vellíðan í svo margvíslegum skilningi að full ástæða er til þess að sveitarfélögin stórefli hana á þeim svæðum, sem þau ráða yfir. Rökin fyrir því að gróðursetja meira meðfram umferðargötum eru sterk og ástæða til að hlusta á þau.

 

Jón Geir var einnig í viðtali um sama mál í hádegisfréttum ríkisútvarpsins laugardaginn 6. janúar. HÉRmá hlýða á viðtalið.