Undarleg hegðun norðlægra trjátegunda í norðausturhluta Bandaríkjanna:

Ný rannsókn á samfélagi trjáa í norðausturhluta Bandaríkjanna hefur vakið athygli vistfræðinga. Skógarþekjan hefur undanfarna þrjá áratugi verið að þoka sér vestur á bóginn, að talið er vegna loftslagsbreytinga. Þessi stefna skógarins er þó að stærstum hluta þvert á það sem vistfræðingar töldu að myndi gerast. Um þetta er fjallað í nýútkomnu tölublaði Bændablaðsins.

Í greininni segir jafnframt:

Sem afleiðing loftslagshlýnunar þá hafa vistfræðingar talið að norðlægar trjátegundir myndu hörfa undan hlýnun loftslags í norðurátt, inn á kaldari búsvæði. Ný rannsókn sem kynnt var í Science Advances á miðvikudag í síðustu viku hefur þó leitt í ljós að þessi þróun hófst fyrir þrem áratugum, en á nokkuð annan hátt en búist var við. Norðlægu trjátegundirnar hafa nefnilega að verulegum hluta tekið stefnuna til vesturs.

Þrír fjórðu hlutar algengra tegunda stefna til vesturs

Um þrír fjórðu hlutar trjátegunda sem algengar eru í skógum í austanverðum Bandaríkjunum, þar á meðal hvítar eikur (white oaks), hlynur (sugar maples) og hinn sígræni ameríski kristsþyrnir (American hollies - Ilex opaca), hafa flutt þungamiðju kjörlendis síns í vesturátt. Meira en helmingur þeirra tegunda sem rannsakaður var höfðu einnig fært sig til norðurs síðan 1980.

Rannsóknin er með þeim fyrstu sem byggja á raunverulegum og tölulegum gögnum um hvernig loftslagsbreytingar eru að endurskapa skógana, en er ekki bara byggt á kenningum vísindamanna. Þó hvert einstakt tré hafi vissulega ekki tekið sig upp og sé á harðahlaupum undan hlýnandi loftslagi, þá sýnir þetta hvernig skógarsamfélagið getur sem heild flutt sig úr stað með tímanum. Ný tré vaxa upp á nýjum svæðum á meðan eldri trén á gömlum svæðum deyja.

Rannsóknarteymið bar saman trjásamfélagið miðað við ímyndaða keðju fólks sem myndaði línu frá Atlanta til Indianapolis. Þótt allir stæðu í sömu sporum en einn bættist við endann í Indiana og annar hyrfi af endanum í Georgíu, þá þýddi það að miðja keðjunnar færist í norðvestur.

Breytt úrkoma mikill áhrifavaldur

Vísindamönnunum þóttu niðurstöðurnar mjög áhugaverðar þó að ljóst væri að þær stemmdu ekki alveg við fyrri kenningar. Niðurstöðurnar kveiktu samt þá tilgátu að um leið og loftslagsbreytingar hafi ýtt undir hlýnun um norðausturhluta Bandaríkjanna, þá hafi úrkoma á svæðinu gjörbreyst. Á sama tíma og úrkoma í norðausturhlutanum hafi aukist lítillega frá 1980, miðað við öldina á undan, þá hafi dregið stórlega úr úrkomu í suðausturhlutanum. Slétturnar miklu, sér í lagi Oklahoma og Kansas, hafa hins vegar fengið mun meiri úrkomu en sögulegt meðaltal segir til um.

Tilfærslan misjöfn eftir tegundum

Songlin Fei, prófessor í skógarfræðum við Purdueháskóla og einn af stjórnendum rannsóknarinnar, segir að mismunandi tegundir bregðist misjafnlega við loftslagsbreytingum. Flestar hraðvaxta stórlaufstegundir [lauftré ]elti rakann og færi búsvæði sín til vesturs. Sígrænu trén og einkum barrtrén eru hins vegar að mestu að flytja sig til norðurs. Hann segir þó að ýmsir fleiri áhrifavaldar kunni líka að spila þarna inn í. Þar nefnir hann aukna tíðni skógarelda og eins gæti verið að tilkoma sjúkdóma sé að hafa áhrif á færslu skóganna. Þá geti árangur af verndun skóga líka haft áhrif. Fei og hópur hans telja að þótt niðurstöðurnar komi nokkuð á óvart, þá séu í það minnsta 20% af breytingunum í takt við það sem spáð var að myndi gerast vegna áhrifa mannsins á loftslagsbreytingar.

/HKr.