(Mynd:: Edda S. Oddsdóttir)
(Mynd:: Edda S. Oddsdóttir)

Norðan við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá gefur að líta fjölbreytt safn trjáa og runna sem eru upprunnar víða að úr heiminum. Safn þetta er hluti af því merka starfi er Þórarinn Benedikz vann þau 40 ár sem hann starfaði hjá Rannsóknastöðinni.

Þórarinn hafði lengst af umsjón með fræsölu Skógræktar ríkisins og í tengslum við það starf og samskipti við erlend trjásöfn bárust honum fræ víðs vegar að úr heiminum. Einnig fór Þórarinn nokkrar ferðir til fræsöfnunar, m.a. til Klettafjalla Norður-Ameríku, Eldlands, Japan og víðar og kom þá heim með margskonar efnivið.

Auk þess að sjá um sölu og dreifingu fræjanna, ræktaði Þórarinn gjarnan nokkra einstaklinga og lét gróðursetja í brekkuna fyrir aftan Mógilsá. Er þannig samankomnar ýmsar tegundir trjáa og runna sem fróðlegt er að sjá hvernig spjara sig í íslensku umhverfi.

Í sumar verða merkingar í trjá- og runnasafninu endurnýjaðar, enda eru gömlu merkingarnar margar orðnar fúnar og sumar horfnar. Mun það auka fræðslugildi trjásafnsins til muna.

Á myndinni hér að ofan má sjá blóm Úlfarunna (stundum kallað Úlfaber) (Viburnum opulus) í Trjá- og runnasafni Mógilsár og þeirri að neðan Þórarinn Benedikz við merkingar á trjásafni Mógilsár.

frett_02072010_12


Texti: Aðalsteinn Sigurgeirsson og Edda S. Oddsdóttir, Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá
Myndir: Edda S. Oddsdóttir