Túrkmenar hafa staðið fyrir ýmsum trjáræktarverkefnum undanfarin ár til að efla gróðurvistkerfi landsins og bæta umhverfi bæja og borga. Þeir taka nú þátt í áskoruninni Trees in Cities á vegum UNECE og hyggjast gróðursetja 2,2 milljónir trjáa í borgum og bæjum landsins, þar af 1,6 milljónir í höfuðborginni Askabat sem hér sést. Ljósmynd: Wikimedia Commons-Bjørn Christian Tørrissen
Yfirvöld í borgum og bæjum um allan heim líta nú í vaxandi mæli til trjánna sem tækis í baráttunni við loftslagsbreytingar. Með öðrum orðum er nú vaxandi áhugi á því að auka trjágróður í þéttbýli og næsta nágrenni þess. Í borgum og bæjum Túrkmenistans verða gróðursettar rúmar tvær milljónir trjáplantna á árinu. Trjárækt sem loftslagsaðgerð í þéttbýli verður meðal umræðuefna á fundi evrópskra borgar- og bæjarstjóra í Genf í október.
Ótal kostir fylgja þéttbýlisskógum. Trén sía til að mynda mengunarefni úr loftinu. Eitt tré getur fjarlægt tugi kílóa af koltvísýringi úr andrúmsloftinu á ári. Trén draga úr hitasveiflum, bæði með því að veita skugga í sólarhitanum og draga úr útgeislun hita þegar kalt er en líka með því að veita skjól og minnka þannig vindkælingu. Þar sem skógur er í brekkum rennur vatn hægar til sjávar. Vatnið nýtist þá gróðrinum og öðrum líferum betur og minni hætta verður á flóðum eða skriðuföllum.
Á þessu öllu er vaxandi skilningur meðal þeirra sem stýra borgum og bæjum hvarvetna um heiminn. Þess vegna er meir og meir leitað eftir hjálp trjánna í baráttunni við loftmengun og áhrif loftslagsbreytinga. Fólk áttar sig nú betur á því en nokkru sinni fyrr hversu verðmætir almenningsgarðar og útivistarskógar eru fyrir heilsu og lífshamingju almennings. Og á tímum kórónuveirunnar hefur þetta víða orðið mjög áþreifanlegt því að í mörgum borgum og bæjum hefur verið gripið til þess að loka almenningsgörðum í sóttvarnarskyni. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Á vef UNECE, efnahagsráðs Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, er sagt frá því að stjórnvöld í Túrkmenistan hafi nú stokkið á þennan vagn með því að lýsa yfir stuðningi við borgartrjáaáskorunina Trees in Cities Challenge. Þetta er átak sem hleypt var af stokkunum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Spáni í fyrrahaust. Þar voru borgarstjórar um allan heim hvattir til þess að gefa fyrirheit um gróðursetningu tiltekins fjölda trjáa. Fulltrúar Túrkmenistans lýstu því yfir á svæðisfundi UNECE um sjálfbæra þróun 19. mars að gróðursettar yrðu 2,2 milljónir trjáa í borgum Túrkmenistans á árinu 2020. Þar af yrðu 1,6 milljónir gróðursettar í höfuðborginni Askabat.
Með yfirlýsingunni eru Túrkmenar komnir í hóp með borgum eins og Podgorica í Svartfjallalandi, Victoria í Kanada, Vancouver í Bandaríkjunum, Tirana í Albaníu, Helsingborg í Svíþjóð, Bonn í Þýskalandi, Malaga á Spáni, Mexíkóborg í Mexíkó, Barcarena í Brasilíu, Tórínó á Ítalíu, Sofíu í Búlgaríu, Tiblisi í Georgíu og Nof Hagalil í Ísrael. Þegar Túrkmeinstan stökk á vagninn í mars voru voru trén sem borgir höfðu skuldbundið sig til að gróðursetja undir merkjum áskorunarinnar komin nálægt ellefu milljónum.
Sumar borgir sem taka áskoruninni líta á verkefnið sem tilvalið tækifæri til að virkja íbúana til þátttöku. Í Victoria-borg í Kanada hefur íbúum til dæmis verið boðið að hjálpa til við að ná markmiðinu um 5.000 ný tré með því að dreifa leiðbeiningum um trjárækt í þéttbýli. Sömuleiðis hefur borgin látið útbúa rafræna leið til að hnita á kort tré sem gróðursett eru svo fylgjast megi með framvindunni.
Olga Algayerova, aðalritari UNECE, segist í frétt efnahagsráðsins vera hæstánægð að sjá þann mikla áhuga sem borgaryfirvöld víða um heim hafi sýnt áskoruninni. Hún þakkar þeim fyrir að grípa þetta tækifæri til aðgerða í loftslagsmálum. Þá hvetur hún bæjar- og borgarstjóra um allan heim til að slást í hópinn með kollegum sínum þegar um hægist og kórónuveiran fer að lina tök sín á samfélögum heimsins.
Kostir trjáræktar í þéttbýli sem náttúrlegs vopns í loftslagsbaráttunni verður meðal umræðuefna á leiðtogafundi borga og bæja sem haldinn verður á vegum UNECE í Genf í Sviss 6. október.