Tvennir tímar í stórum jólatrjám á Íslandi - flest torgtré innlend í dag – hærri en norska jólatréð á Austurvelli

Ofangreindar upplýsingar frá Hreini Óskarssyni skógarverði á Suðurlandi koma skógræktarmönnum sjálfsagt lítið á óvart en ekki er eins víst að almenningi sé þetta kunnugt.

Fróðleikur um jólatré

Tímarnir hafa breyst mikið í þessum efnum á síðustu 50 árum. Áður fyrr komu stóru trén  (og þau smærri einnig) gjarnan til landsins með Gullfossi, skipi Eimskipafélagsins. Oft var vandkvæðum búið að skipa trjánum upp og koma fyrir á torgum án hnjasks. Ólafur GE Sæmundsson starfsmaður viðarmiðlunar Skógræktarinnar kom oft að þessum flutningum og segir að ýmsar tilfæringar hafi verið viðhafðar við að koma brotnum greinum og brotnum trjátoppum fyrir á trjánum. Var fleygað, borað og spengt með steypustyrktarjárni ef með þurfti. Ólafur nefnir einnig að oft hafi stór torgtré verið búin til úr mörgum smærri trjám sem raðað var ofan á og í kringum málmhólk, eins konar gervitorgtré (sbr. gervijólatré)!

            Nú eru flest torgtré á Íslandi innlend, enda þarf undanþágu til innflutnings slíkra trjáa. Hafa mörg innlendu trén verið hærri (um og yfir 15m) en norska jólatréð á Austurvelli við Alþingishús Íslendinga, en það er um 10m hátt skv. upplýsingum frá Reykjavíkurborg.

Mikið af torgtrjám koma frá Skógrækt ríkisins á Vesturlandi úr Skorradal, en töluvert kemur af Suðurlandi og Austurlandi. Meðfylgjandi mynd sýnir torgtré er Gísli Baldur Mörköre, verkstjóri í Skorradal, felldi nú um miðjan desember.

Jólatrésannir hjá starfsmönnum Skógræktar ríkisins fara nú minnkandi eftir því sem líður nær jólum. Birgir Hauksson skógarvörður á Vesturlandi segir þó að almenningi gefist tækifæri til að fá tré í Hvammi í Skorradal helgina 17.-18. desember, eða höggva sjálfur tré í Selskógi í Skorradal á sama tíma. Athugið að ekki er tekið við greiðslukortum, heldur tekið við reiðufé upp á gamla mátann. Kannski er það sem koma skal – stækkandi tré og reiðufé!