Mikilvægi trjágróðurs í þéttbýli verður seint ofmetið. Trén binda ryk, draga úr hljóðmengun, tempra …
Mikilvægi trjágróðurs í þéttbýli verður seint ofmetið. Trén binda ryk, draga úr hljóðmengun, tempra vatnsrennsli og búa til vistkerfi í annars manngerðu umhverfi.

Síðustu örfyrirlestrarnir í tilefni af ári jarðvegs

Miðvikudaginn 4. nóvember næstkomandi lýkur örfyrirlestraröð árs jarðvegs 2015 með því að opna á umræðu sem er nokkurt nýmæli hérlendis. Fjallað verður um mikilvægi moldarinnar í borgarvistkerfum. Ætlunin er að beina augunum að vistkerfum í þéttbýli og fjalla um ýmislegt þeim tengt. Fundurinn verður á Kaffi Loka á Skólavörðuholti í Reykjavík frá kl. 12-13. Á matseðli er góður matur á viðráðanlegu verði! Það er samstarfshópur um ár jarðvegs sem stendur fyrir fundinum. Fyrirlestrarnir verða þrír.

  • Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytur fyrirlestur undir heitinu Náttúrulegri borgir.
  • Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri stefnumótunar og þróunar, hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar heldur erindi sem hún nefnir Grænt og grátt í Reykjavík.
  • Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins, flytur fyrirlestur sem ber heitið Áhrif vaxtar á vistkerfi höfuðborgarsvæðisins.

Að loknum fyrirlestrum gefst gestum tækifæri á að koma með spurningar eða sínar eigin stuttar hugleiðingar um viðfangsefni dagsins.


Meðal þeirra spurninga sem ætlunin er að bera upp og ræða um eru þessar:

  • Hvernig getum við í auknum mæli byggt upp „sjálfbær“ og að mestu viðhaldsfrí vistkerfi innan þéttbýlis?
  • Hvaða áhrif hefur aukinn trjágróður í þéttbýli á t.d. loftgæði, vatnsmiðlun og kolefnisbindingu?
  • Ætti þéttbýlið að móta sér stefnu í að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga með því að efla vistkerfi innan byggðakjarna samhliða stefnu um grænni samgöngumáta og minni losun gróðurhúsalofttegunda?
  • Hafa virk og fjölbreytt borgarvistkerfi mögulega jákvæð áhrif á heilsufar íbúa?
  • Hvað með leiðir til að draga úr ógegndræpu yfirborði? (Um 47% af yfirborði lands innan höfuðborgarsvæðisins eru malbikuð/steinsteypt.)
  • Getum við eða eigum að hanna græn svæði þannig að ekki þurfi að slá þau né sinna öðru viðhaldi að neinu marki?
  • Hvað með aðrar leiðir til umhirðu grænna svæða; svo sem með stýrðri búfjárbeit?
  • Er hægt að útbúa matjurtagarða fyrir almenning innan íbúðahverfa?
  • Hvernig eru þessi mál meðhöndluð í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem og í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur?
  • Verulegur hluti vistkerfa í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er í lélegu ástandi og langt undir vistgetu – ætla sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að leggja sitt að mörkunum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga til dæmis með því að fara í markvissa endurheimt vistkerfa í nágrenni höfuðborgarsvæðisins?

Nánari upplýsingar gefur Þórunn Pétursdóttur, landgræðsluvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins.
Þórunn er með netfangið thorunnp@land.is  og síma 856 0430 eða 773 5564.