Rabbað við nýja skógarvörðinn á Vöglum
Rúnar Ísleifsson skógverkfræðingur tók við starfi skógarvarðar Skógræktar ríkisins á Norðurlandi 1. apríl af Sigurði Skúlasyni sem gegnt hafði embættinu í 27 ár. Aðalstöðvar embættisins eru á Vöglum í Fnjóskadal. Í dalnum eru miklir skógar og þeirra frægastur Vaglaskógur, einn stærsti náttúrlegi birkiskógur landsins. Skógar sem Skógrækt ríkisins hefur umsjón með eru kallaðir þjóðskógar og Vaglaskógur var einn þeirra skóga sem stofnunin fékk í vöggugjöf þegar hún hóf formlega starfsemi 1. desember 1908.
Man eftir brunanum ‘66
Rúnar kannast vel við sig í Vaglaskógi enda ólst hann þar upp og er af skógarmannaættum. Faðir hans, Ísleifur Sumarliðason, var skógarvörður á Vöglum á árunum 1949-1987, og kynntist þar konu sinni og móður Rúnars, Sigurlaugu Jónsdóttur. Skógarvarðarhúsið sem Rúnar flytur nú í ásamt konu sinni og tveimur ungum sonum var upphaflega reist 1961, ári áður en Rúnar fæddist. Það brann árið 1966 og segist Rúnar muna vel eftir brunanum. Hann hafi verið borinn út úr brennandi húsinu en laumast burt og verið gripinn þar sem hann ætlaði inn um kjallaradyr, líklega til að bjarga einhverju af dótinu sínu. Svipað hús var reist á sama grunni og þar er nú unnið að endurbótum áður en nýja skógarvarðarfjölskyldan flytur inn.
En skyldi ekki hafa verið ævintýri að alast upp í Vaglaskógi á 7. og 8. áratugnum? Rúnar segir það vissulega hafa verið. Þau systkinin léku sér eins og þau lysti í skóginum, þvældust kringum fólkið í gróðrarstöðinni og endalaust var hægt að finna sér eitthvað að gera. Hann segist hafa verið mikið úti á eyrunum við Fnjóská þar sem hægt var að veiða síli og jafnvel krækja sér í bleikju- og urriðatitti og veiðar hafa alla tíð verið áhugamál hjá Rúnari. Fnjóskáin hafði mikið aðdráttarafl fyrir krakkana en þau voru vöruð mjög við henni, enda straumhörð og vatnsmikil á, ekki síst til móts við Vagli.
Skógurinn dafnar
Meðan Skógrækt ríkisins rak plöntuframleiðslu í Vaglaskógi var mikið líf í tuskunum, einkum á sumrin. Þriggja til fimm manna kjarni starfaði allt árið en starfsmannafjöldinn margfaldaðist yfir sumartímann. Öllu þessu ólst Rúnar upp með og hann telur að skógræktaráhuginn hafi síast inn hjá honum smám saman frá blautu barnsbeini. Hann hefur horft á skógana í Fnjóskadal stækka mikið og dafna. Þegar hann var strákur voru til dæmis Hálsmelarnir norðan og austan við gömlu bogabrúna enn örfoka land. Fólk sem ók austur yfir brúna man eftir að hafa komið upp úr skóginum á þetta bera land sem nú er óðum að gróa upp með birki- og lerkiskógi, bæði fyrir tilverknað Skógræktar ríkisins og landgræðsluskógaverkefna sem félagar í Fnjóskadalsdeild Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga störfuðu að í sjálfboðavinnu. Hálsmelarnir sýna vel, segir Rúnar, hvernig standa má að nytjaskógrækt á beru og einskis nýtu landi, ekki síst ef lúpínan er notuð til hjálpar.
Rúnar segir líka eftirtektarvert hversu vel skógarnir hafa tekið við sér undanfarna tvo áratugi eða svo. Til dæmis nefnir hann rauðgreni sem vaxið hafi gríðarlega síðustu árin, reitir sem fram að því hafi verið fremur seinvaxnir. Þetta þakkar hann lengri og hlýrri sumrum og ekki sé hægt að verjast þeirri hugsun að hér séu afleiðingar hinna umtöluðu loftslagsbreytinga á jörðinni.
Skógræktaráhuginn
Upp úr tvítugu blossaði skógræktaráhuginn upp hjá Rúnari og hann fór að huga að því að leggja skógræktina fyrir sig og læra til hennar. Svíþjóð varð fyrir valinu og segir Rúnar að það hafi verið fyrir áhrif Sigurðar Blöndals, þáverandi skógræktarstjóra, sem vildi fá fólk með menntun frá fleiri löndum en Noregi þar sem flestir höfðu lært skógfræði fram að því. Aðstæður eru nokkuð aðrar í Svíþjóð, miklu meira skóglendi, atvinnugreinin vélvæddari og land auðveldara yfirferðar stórvirkum tækjum.
Rúnar stundaði grunnnám í skógrækt við Östboskolan í Värnamo í Svíþjóð og svo skógtækninám við sama skóla en árið 1989 lauk hann B.Sc.- prófi í skógverkfræði frá sænska landbúnaðarháskólanum í Skinnskatteberg. Hann segist aldrei hafa stefnt að því að verða skógarvörður á Vöglum og jafnvel talið það fráleita hugmynd enda hugurinn beinst að öðru lengst af. Hann var skógræktarráðunautur Skógræktar ríkisins á Austurlandi 1990-1997, þá skógræktarráðunautur Héraðsskóga til 2002 þegar hann tók við framkvæmdastjórn Barra hf. á Egilsstöðum. Frá árinu 2005 hefur hann verið skógræktarráðunautur Skógræktar ríkisins með aðsetur á Norðurlandi. Rúnar hefur því mikið unnið „úti í feltinu“ eins og skógræktarfólk orðar það, og kynnst öllum hliðum skógræktarinnar, ekki síst með starfinu hjá Barra við skógarplöntuframleiðsluna sem er eitt mikilvægasta en líka viðkvæmasta stig skógræktarstarfsins.
Umhirða og grisjun
Aðspurður um hvað Rúnar muni leggja áherslu á í norðlensku skógunum segist hann vilja efla umhirðu skóganna og auka grisjun. Nú séu skógarnir komnir á það stig að þetta verði að vinna vel svo sem mest verðmæti fáist út úr skógunum og sem fallegastir og hraustastir skógar. Með tilkomu grisjunarvélarinnar sem verktaki á Héraði hefur keypt til landsins verði mun auðveldara að sinna þessu starfi vel, ekki síst í snjóþungum skógum Fnjóskadals þar sem gjarnan er erfitt um vik að grisja stóran hluta ársins vegna snjóþyngsla. Enn er til dæmis ófært vegna snjóa um þessa skóga þó að apríl sé liðinn. Skógarhöggsvél sem vinnur á við tíu menn með keðjusög getur því afkastað miklu meðan sumar er og fært um skógana. Strax í sumar vonast Rúnar til að hægt verði að taka verulega til hendinni með hjálp nýju vélarinnar.
Samt sem áður er mikilvægt að þjálfa upp öfluga skógarhöggsmenn, segir Rúnar, því skógarhögg sé erfitt starf, bæði líkamlega og tæknilega. Skógarhöggsvélar vinni ekki öll verk og skógarhöggsmenn þurfi til dæmis til starfa í birkiskógunum, bæði við snyrtingu og öflun arinviðar sem er ein helsta söluvaran hjá embætti skógarvarðarins á Norðurlandi.
Skuggabjörg og Melskógur
Nýráðinn skógarvörður á Norðurlandi sér fyrir sér bjarta framtíð í norðlenskum skógum. Þótt viðhald og umhirða sé stór þáttur í starfinu séu möguleikar á nýskógrækt líka. Nú sé verið að gróðursetja í landi Belgsár í Fnjóskadal upp í samning sem Landsvirkjun gerði við Skógrækt ríkisins um kolefnisbindingu í skógi. Mögulega sé hægt að gróðursetja við Skuggabjörg og í Melaskógi í Fnjóskadal, jafnvel stækka skógræktina á Vöglum á Þelamörk ef um slíkt semdist. Vaglir eru fræmiðstöð Skógræktarinnar, með fræbanka og fræframleiðslu. Í Fræhúsinu svokallaða, stóru gróðurhúsi, er aðallega framleitt fræ af nýju og öflugu lerkiyrki, „Hrym“, sem er blanda evrópuog rússalerkis, þróað við kynbótastarf á Vöglum.
Göngin auka umferð í skóginn
Þá sér Rúnar fyrir sér að bæta verði aðstöðu til viðarvinnslu í Vaglaskógi eftir því sem afurðir skógarins aukast. Sömuleiðis verði að bæta þjónustu við gesti skóganna, ekki síst í Vaglaskógi, til dæmis með betri grillaðstöðu og öðru sem eflt getur útivist og ánægju gestanna í skóginum. Með Vaðlaheiðargöngum býst hann við að Vaglaskógur verði enn fjölsóttari áningarstaður og útivistarsvæði enda verða ekki nema um 17 kílómetrar þangað frá Akureyri. Rúnar er sjálfur mikill útivistarmaður og telur ekki útilokað að Vaglaskógur verði nýttur meira yfir vetrartímann til skíðaiðkunar þegar göngin opnast. Hvort boðið verður upp á troðin spor eða ekki sé spurning um peninga og mannskap en í það minnsta verði að sjá til þess að fólk komist í skóginn og geti lagt bílunum sínum á bílastæði. Hvað sem því líður býður Vaglaskógur upp á frábæra möguleika til skíðagöngu, segir Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum, að lokum.
Talsvert er af brotnu birki í Vaglaskógi eftir veturinn
Hér er svo viðtalið við Rúnar eins og það birtist í blaðinu Vikudegi. Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.