Þátttakendur í aðalfundi Skógræktarfélags Íslands syngja við raust í Hálsaskógi, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Djúpavogs.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands ályktar að gróðursettar verði 8 milljónir trjáplantna á ári
Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands lauk á Djúpavogi laust fyrir hádegi í dag. Ályktað var um eflingu skógræktar með því markmiði að á næstu 5 árum verði gróðursettar átta milljónir trjáplantna árlega.
Um 120 félagar úr aðildarfélögum Skógræktarfélags Íslands víðs vegar um landið tóku þátt í fundinum sem fram fór í einmuna blíðu, sólskini og hlýju veðri. Magnús Gunnarsson er áfram formaður félagsins og aðrir aðalmenn í stjórn eru Sigrún Stefánsdóttir, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Guðbrandur Brynjólfsson, Þuríður Yngvadóttir og Páll Ingþór Kristinsson. Varamenn voru kjörin þau Kristinn Þorsteinsson, Laufey Hannesdóttir og Sigríður Heiðmundsdóttir.
Undir lok fundarins voru bornar upp til samþykktar tillögur að ályktunum sem lagðar höfðu verið fram og ræddar. Ályktað var að stjórn SÍ hvetti sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu til að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi að gerð Græna stígsins í græna trefli skógræktarsvæðanna ofan byggðar höfuðborgarsvæðisins. Stjórnin var einnig hvött til þess í ályktun að fylgja fast eftir ályktun frá síðasta aðalfundi um nýtingu þjóðlendna til landgræðslu og skógræktar á vegum skógræktarfélaganna. Jafnframt var ályktað um nýtingu íslensks trjáviðar við uppbyggingu á ferðamannastöðum.
Í ályktun um eflingu skógræktar sem samþykkt var á fundinum eru stjórnvöld hvött til að auka skógrækt á ný í landinu. Gróðursetning hafi dregist saman úr sex milljónum skógarplantna á ári 2007 niður í um þrjár milljónir. Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands vill að markið verði sett á átta milljónir gróðursettra trjáplantna á ári næstu fimm árin. Ályktunin hljóðar svo:
Aðalfundur Skógræktarfélags íslands, haldinn á Djúpavogi 2.-4. september 2016, hvetur stjórnvöld til að stórauka framlög til skógræktar. Vísað er til þingsályktunar sem samþykkt var samhljóða á Alþingi árið 2014 sem fjallaði m.a. um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar. Gróðursetning skógarplantna hefur dregist saman ár frá ári allt frá árinu 2007, þegar 6 milljónir skógarplantna voru gróðursettar, í 3 milljónir skógarplantna á ári. Meðfylgjandi mynd Einars Gunnarssonar úr Skógræktarritinu 1. tbl. 2016 sýnir stöðuna. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni og hefur ekki bara haft áhrif á gróðursetningu heldur einnig á skógarplöntuframleiðslu sem atvinnuveg, sem er að verða svo veikburða. Hætt er við að forsendur fyrir eðlilegu samkeppnisumhvefi á því sviði séu að bresta. Markmiðið er að á næstu árum verði stefnt að því að gróðursetja 8 milljónir skógarplantna á ári hverju.
Skógræktarfélagi Suður-Þingeyinga var á fundinum formlega falið að halda aðalfundinn að ári. Fundurinn fer fram á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði í 25.-27. ágúst 2017.