Þessi nemendahópur sem hér sést ásamt skólastjóranum Flemming Jessen gekk um skógarsvæðið nokkru  fyrir hátíðina og kannaði aðstæður í skógarreitunum sem umlykja skólabyggingarnar. Byggð var brú upp í lundinn sem valin var sem fyrsti áfangastaður í grenndarskóginum, en hann liggur mitt á milli skólabygginganna. Skógræktin útvegaði efni til brúarsmíðinnar en nemendur lögðu hart að sér með dyggri aðstoð Ásgeirs á Svarfhóli.

                
Flemming skólastjóri setti hátíðina  og stjórnaði afar fjölbreyttri dagskrá þar sem hver aldurshópur nemenda kom með menningarlegt atriði, ljóðalestur, tónlist eða söng.   
                   
Helga skólanefndarformaður afhenti skólanum afnot af skógarsvæðinu í kringum skólabyggingarnar með innrömmuðu undirrituðu skjali. 


Birgir Hauksson skógarvörður á Vesturlandi afhenti Flemming veðurmælinn með góðri kveðju um leið og hann hét því að leggja skólanum lið við uppbyggingu á aðstöðu í grenndarskóginum. Magnús Magnússon bóndi á Hamrendum lék á harmonikku á meðan gestir nutu góðra veitinga Kristjáns kokks sem hafði bakað kleinur og hitað kakó gestum til mikillar ánægju.