Mörg dæmi eru um að fólk hafi ræktað eplatré með ágætum árangri hér á landi. Eplatré eru að vísu flest ættuð frá svæðum þar sem sumur eru lengri og hlýrri en hér gerist og því eru þau fremur illa aðlöguð íslensku veðurfari. Einkum vaxa þau lengi fram eftir hausti og verða því fyrir skemmdum í íslenskum haustfrostum. Það eykur mjög lífslíkur þeirra að rækta þau á hlýjum stöðum og í góðu skjóli, svo sem við suðurveggi húsa.

Sjaldgæft er að eplatré þroski epli hér á landi, en lengra og hlýrra sumar þarf til að aldin þroskist en til að tré vaxi. Eflaust er þó hægt á ná ágætum árangri í eplarækt í óupphituðum gróðurhúsum.

 

Byggt á svari Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, á Vísindavef Háskóla Íslands.