Í gær, fimmtudaginn 29. apríl, var haldinn fundur um aðgengi að Þórsmerkusvæðinu, sér í lagi opnun vegarins fram hjá Gígjökli. Á fundinn komu ferðaþjónustuaðilar í Þórsmörk, Skógrækt ríkisins, sveitarstjóri og ferðamálafulltrúi Rangárþings eystra, auk lögregluyfirvalda. Fram kom á fundinum að erfitt gæti reynst að opna veginn fram hjá Gígjökli meðan eldgos varir enda mikið vatnsrennsli niður Jökulsá. Aðrir möguleikar voru nefndir, t.d. bygging göngubrúar og akstur á stórum trukkum með ferðamenn yfir Markarfljót. Ljóst er að margir ferðamenn munu koma gangandi yfir Fimmvörðuháls og suður Laugarveg í sumar og því afar brýnt að leysa vegamál hið fyrsta. Var ákveðið að ræða við Vegagerð ríkisins um möguleika á að laga veginn. Erfitt getur reynst að laga stíga og göngubrýr í Þórsmörk og Goðalandi meðan á eldgosinu í Eyjafjallajökli stendur en skógræktarmenn vona að því linni hið fyrsta.

frett_30042010_1

frett_30042010_3

Myndir og texti: Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi