Eftirfarandi fréttir birtust um málið um helgina, heimild www.ruv.is

Ríkisútvarpið - Rás 1 og 2 Fréttir 6/1 2007 kl: 12:20 
 
Vestfjarðavegur samþykktur
 
Umhverfisráðherra hefur snúið við úrskurði Skipulagsstofnunar og fallist á lagningu Vestfjarðavegar í gegnum Teigsskóg við vestanverðan Þorskafjörð. Fallist er á framkvæmdina að teknu tilliti til umferðaröryggis. Úlfar Thoroddsen, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar segir þetta gleðifréttir.

Úlfar Thoroddsen, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar: Þetta eru gleðifréttir fyrir alla íbúa hér í Vesturbyggðum Barðastrandasýslu og sjálfsagt flesta íbúa í Reykhólahreppi. Það, ég, við vitum það að það er einhver óeining um þetta og það verður alltaf en tel það alveg fullvíst að þetta sé eftir vilja meirihluta íbúa á þessu svæði.

Úlfar telur þetta besta kostinn sem í boði var, leiðin muni liggja um láglendi í stað þess að þurfa að þræða tvo hálsa sem geta verið erfiðir og hættulegir, sérstaklega á vetrum.

Úlfar Thoroddsen: Og það má bara segja að það sé guðs mildi að ekki hafi farið verr á þessari leið en raunin er.

Sex skilyrði eru sett fyrir lagningu vegarins og meðal þeirra er að Vegagerðin rækti birkiskóg á Vestfjörðum í samráði við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins til jafns að flatarmáli við þann birkiskóg sem raskast við framkvæmdina. Þá er Vegagerðinni gert að velja þann kost sem er bestur með hliðsjón af verndun Teigsskógar við útfærslu vegarins og með tilliti til arnarvarps.

Úlfar Thoroddsen: Þarna opnast land sem að enginn hefur farið í gegnum. Við höfum horft á þetta svæði á leiðinni en nú, en þegar vegur verður kominn þarna í gegn þá eiga allir kost á því að sjá þetta svæði.

 

Sjónvarpið Fréttir 6/1 2007 kl: 19:00 
 
Úrskurði hnekkt 
 
Umhverfisráðherra hnekkti í dag úrskurði Skipulagsstofnunar um Vestfjarðaveg. Skipulagsstofnun vildi ekki leyfa veglagningu um Teigsskóg í Þorskafirði en ráðherra segir umferðaröryggi vega þyngra en verndun skógarins. Því var fagnað víða í Vesturbyggð í dag og flaggað við opinberar byggingar.

Vestfjarðavegur verður allt að 48 kílómetrar frá Bjarkarlundi að Eyri í Kollafirði í Reykhólahreppi. Framkvæmdinni verður skipt í þrjá áfanga og áfanga númer tvö í þrjár leiðir. Það er leið B í áfanga tvö sem mestur styr hefur staðið um en þar er gert ráð fyrir að vegurinn liggi um Teigsskóg í Þorskafirði. Skipulagsstofnun úrskurðaði 28. febrúar í fyrra að umtalsverð umhverfisáhrif yrðu af lagningu vegar um Teigsskóg. Átta kærur bárust umhverfisráðuneytinu vegna úrskurðarins, þar á meðal frá Vegagerðinni, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppi og Reykhólahreppi. Ráðuneytið ákvað vegna álitamála um verndargildi og sérstöðu Teigsskógar að leita eftir sérfræðiáliti vistfræðings. Í dag var svo tilkynnt að ráðuneytið hefði staðfest úrskurð skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar nema hvað varðar leið B. Þetta þýðir að gert er ráð fyrir að vegurinn verði lagður gegnum Teigsskóg og þar með fallist á kröfu kærenda.

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra (B): Rökin á bakvið þetta eru fyrst og fremst umferðaröryggi, umferðaröryggissjónarmið. Hálsarnir þarna eru vegatálmar. Þeir eru hættulegir, ekki síst á vetrum. Þarna er ekið með skólabörn. Það eru ekki síst þessir hagsmunir sem eru lagðir til grundvallar. Mat á umhverfisáhrifum að þá er þetta skoðað heildrænt. Þetta er samfélag manna. Þetta er atvinnusvæði.

Ráðuneytið telja að umferðaröryggissjónarmið vegi þungt við mat á því hvort framkvæmd geti talist hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga. Þar er vísað til úrskurðar Skipulagsstofnunar sem eins og fyrr segir komst að þeirri niðurstöðu að umtalsverð umhverfisáhrif yrðu af lagningu vegar um Teigsskóg. Í úrskurði

Skipulagsstofnunar segir meðal annars. Verndargildi Teigsskógar á leið B er meira en annarra birkiskóga á svæðinu þar sem hann er á náttúruminjaskrá og vegagerð um skóginn samræmist illa lögum um náttúruvernd og gengur í berhögg við stefnumörkun stjórnvalda til sjálfbærrar þróunar. Mat Skógræktar ríkisins var að veglagning um Teigsskóg hefði í för með sér mestu samfelldu skógareyðingu vegna framkvæmda hér á landi í seinni tíð. Þeir sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar fögnuðu ákvörðun umhverfisráðherra í dag og bæjarstjóri Vesturbyggðar lét flagga á öllum opinberum byggingum sveitarfélagsins, bæði á Patreksfirði og Bíldudal.
 

Ríkisútvarpið - Rás 1 og 2 Fréttir  7/1 2007 12:20 
 
Náttúruperla 
 
Skógrækt ríkisins segir að í Teigsskógi á Vestfjörðum þrífist sérstakt vistkerfi. Skógurinn sé perla. Umhverfisráðherra sneri í gær við úrskurði Skipulagsstofnunar og féllst á lagningu Vestfjarðavegar í gegnum Teigsskóg við vestanverðan Þorskafjörð.

Hallgrímur Indriðason hjá Skógrækt ríkisins segir að Skógræktin hafi lagt til að Vestfjarðavegur yrði lagður um Hjallaháls.

Hallgrímur Indriðason, Skógrækt ríkisins: En hún gerir sér jafnframt grein fyrir því að vegagerðin hún gefur upp þrjá valkosti um vegalagningu um Teigsskóg. Það er að segja fjöruleið, leið um miðjan skóginn eða eftir skóginum endilöngum og svo svokallaða efri línu. Og við leggjum til að verði leið B valin um Teigsskóg sem að virðist nú hafa verið gert ef að ráðherra hefur sem sagt lagt til að það verði gert, að þá veljum við leið, efri veglínu um Teigsskóg sem hefur mun minna rask í för með sér heldur en ef að farið er eftir skóginum endilöngum.

Jóhanna Margrét Einarsdóttir: Hvað er svona merkilegt við Teigsskóg?

Hallgrímur Indriðason: Ja, kannski það merkilegasta er það að þetta er náttúrulega stærsta skóglendi á Vestfjörðum. Hann er um 380 hektarar. Og þetta er skógur sem að um aldir hefur verið nýttur sem beitiskógur og hafræna Breiðafjarðar hefur skilið hann eftir þannig að þetta er svona lágvaxið, lágvaxið mjög þétt kjarr, um tveggja metra hátt, tveir til tveir og hálfur meter. En uppúr þessum skógi vaxa á stöku stað ákaflega fallegir gamlir, kannski 100 ára gamlir reyniviðir sem að hérna mynda svona eins konar yfirhæð. Og gera þennan skóg að sérstakri perlu um leið. Ákaflega hérna fallegum haustlitum og hann er náttúrulega alveg sérstakt vistkerfi útaf fyrir sig.