CAR-ES samstarfið framlengt til 2020

Rannsóknarmiðstöðin CAR-ES efnir ásamt fleirum til vinnusmiðju í marsmánuði um umhverfisstjórnun og lífhagkerfið, „Landscape management and design for food, bioenergy and the bioeconomy: methodology and governance aspects“.

Smiðjan verður haldin í Chalmers-tækniháskólanum í Gautaborg í Svíþjóð 15.-16. mars. Frestur til að skila inn fyrirlestrum er 8. febrúar kl. 11 árdegis að íslenskum tíma. Skráning til þátttöku stendur til 19. febrúar. Áhugasömum er bent á að hafa samband við  Göran Berndes (goran.berndes@chalmers.se) eða Madelene Ostwald (madelene.ostwald@chalmers.se).

Skammstöfunin CAR-ES stendur fyrir Centre of Advanced Research on Environmental Services from Nordic Forest Ecosystems. Þetta er samstarf um rannsóknir á vistkerfisþjónustu skógarvistkerfa á Norðurlöndunum og nýtur stuðnings norrænu skógvísindastofnunarinnar SNS sem kallast á ensku Nordic Forest Research en á norrænu máli Samnordisk skogsforskning.

CAR-ES er opið samstarfsnet þar sem saman kemur skógvísindafólk frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum í því augnamiði að safna saman vísindalegri þekkingu um áhrif skógnýtingar á vistkerfisþjónustu helstu skógvistkerfa. Þeirri vitneskju er ætlað að nýtast til stefnumótunar og ákvarðana í bæði opinberri stjórnsýslu og hjá fyrirtækjum.

Fyrri starfsáætlun CAR-ES samstarfsins rann út um áramótin en nú hefur verið ákveðið að framlengja það til ársins 2020. Stjórn verkefnisins flyst nú til Finnlands og verður á höndum Raija Laiho hjá auðlindastofnun Finnlands, LUKE.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu CAR-ES en einnig má hafa samband beint við verkefnisstjórann, Raija Laiho með netfanginu Raija.Laiho@luke.fi.

Texti: Pétur Halldórsson