Fulltrúi í minnihluta mælti með beitarstýringu í afmörkuðu hólfi
Yfirítölunefnd úrskurðaði í dag um ítölu í afréttinn Almenninga í Rangárþingi eystra. Niðurstaða tveggja nefndarmanna af þremur var sú að leyfa mætti beit 60 lambáa á Almenningum sumarið 2015, að hámarki 180 kindur. Einn nefndarmaður skilaði sératkvæði og lagði til að leyft yrði að beita tíu lambám á svæðið í sumar en skynsamlegasta lausnin væri að beita einungis fé á afmarkað beitarhólf.
Yfirítölunefnd skipa þau Anna Margrét Jónsdóttir ráðunautur, Ágúst H. Bjarnason, plöntuvistfræðingur og Skarphéðinn Pétursson, hæstaréttarlögmaður og formaður nefndarinnar.
Almenningar eru landsvæði norður af Þórsmörk í Rangárvallasýslu milli Þröngár í suðri og Fremri- (Syðri-) Emstruár í norðri. Að vestan markast þeir af Markarfljóti og að austan af Merkurjökli.
Niðurstaða Önnu Margrétar og Skarphéðins var sú að miðað við ástand lands og settar reglur væri eðlilegt að leyfa beit sextíu lambáa á Almenningum sumarið 2015, samtals 180 kinda. Vísa þau til þess að nýjustu gögn um gróðurþekju, þ.e. gróðurkort Náttúrufræðistofnunar Íslands, sýni 36% gróðurþekju afréttarins sem bendii til þess að gróðri hafi farið mikið fram síðan 1966. Kortlagning Nytjalands styðji niðurstöður gróðurkortlagningar Náttúrufræðistofnunar að mati yfirítölunefndar. Þetta meta þau hóflegan beitarþunga og vísa í beitarþolsrannsóknir máli sínu til stuðnings.
Meirihluti nefndarinnar leggur til að komið verði upp ákveðnum vöktunarstöðum á afréttinum og óháður aðili fylgist kerfisbundið með ástandi hans. Einnig að farið verði með sama fé á afréttinn ár eftir ár til að gera það hagvant og stöðugt þar en ffé sem verði uppvíst að því að ganga ítrekað niður í Þórsmörk, verði ekki flutt aftur í Almenninga. Enn fremur leggja þau til að beitartíminn verði í venjulegu árferði frá júlíbyrjun til septemberbyrjunar, að hámarki 65 dagar og aldrei sé farið með fé fyrr en gróður er kominn vel af stað. Uppgræðslu á afréttinum verði einnig haldið áfram samfara beitinni.
Ágúst H. Bjarnason skilaði sératkvæði sem fyrr segir og nefnir í úrskurði sínum að hér á landi hafi menn ekki skirrst við að beita sauðfé á niðurnítt land svo lengi sem strá er þar að finna. Sá tími eigi að vera löngu liðinn. Þá vitnar Ágúst í 22. grein laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 þar sem segir:
„Ítala skal svo ákvörðuð, að fullskipað sé í landið en ekki ofskipað miðað við beitarþol. Byggja skal á beitarþolsrannsóknum svo sem við verður komið, jafnframt skal tekið tillit til aðstæðna hverju sinni. Búfé skal lagt í einingar með hliðsjón af tillögum sérfræðinga í fóðurfræði og beitarþolsrannsóknum. Ítölunefnd er heimilt að ákveða hlutfallstölu einstakra búfjártegunda, sé gróðurfar landsins mjög einhæft.“
Með vísan til ofan nefnds lagatexta, sem túlka megi á þann veg, að skylt sé að nefna tölu fjár, telur Ágúst að leyfa mætti lausagöngu tíu lambáa eða jafngildi þeirra, sjái menn sér hag í því.
Á hinn bóginn sé skynsamlegasta lausnin að bændur komi sér upp 15-20 hektara beitarhólfi á Almenningum, ef til vill í samvinnu við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins, og fái að beita það að eigin vild undir vökulu auga rannsóknastofnunar, sem fylgist með framvindu gróðurs og áhrifum beitar.
Ágúst birtir úrskurð yfirítölunefndar í heild á vef sínum ahb.is.