Yrkjusjóður auglýsir eftir umsóknum vegna ársins 2004. Allir grunnskólar landsins geta sótt um trjáplöntur í sjóðinn, hvort sem er til gróðursetningar vor eða haust.

Yrkjusjóður var stofnaður árið 1992. Stofnfé sjóðsins er afrakstur sölu bókarinnar Yrkju, sem gefin var út í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Höfuðstóll sjóðsins er um 50 milljónir króna. Að ósk Vigdísar er vaxtatekjum sjóðsins varið til kaupa á trjáplöntum fyrir grunnskólana. Skólarnir hafa sýnt mjög jákvæð viðbrögð gagnvart sjóðnum en 7-8.000 grunnskólabörn víða um land hafa árlega tekið þátt í gróðursetningu á vegum sjóðsins.

Undanfarin ár hefur sjóðurinn haft bolmagn til þess að styrkja alla þá umsækjendur sem sótt hafa um fyrir tilsettan tíma. Nema styrkirnir 3-6 trjáplöntum á hvern nemanda. Á vegum sjóðsins hafa því verið gróðursettar 30-40 þúsundir trjáplantna á hverju ári.

Frá og með síðasta stjórnarfundi Yrkju er stjórnin þannig skipuð:

Stjórnarformaður; Sigurður Pálsson, skáld.
Fulltrúi Menntamálaráðuneytis; Sigríður Anna Þórðardóttir.
Fulltrúi Skógræktarfélags Íslands; Magnús Jóhannesson.
Fulltrúi Kennarasambands Íslands; Fjóla Höskuldsdóttir.
Fulltrúi Skógræktar ríkisins; Jón Loftsson.
Fulltrúi íslenskrar æsku; Þorbjörg Sæmundsdóttir.

Umsjón sjóðsins er í höndum Skógræktarfélags Íslands. Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands, www.skog.is, undir tenglinum Yrkja.

(Morgunblaðið, sunnudaginn 15. febrúar 2004)