Eitthundrað ár frá samþykkt laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands

- Grein Hallgríms Indriðasonar

Eitthundrað ár frá samþykkt laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands

Á þessu ári eru 100 ár liðin síðan Alþingi Íslendinga samþykkti lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands. Það er almennur skilningur að þessi lagasetning hafi í senn bjargað þeim skógarleifum sem eftir voru á landinu, stuðlað að uppgræðslu, vörnum gegn sandfoki og landeyðingu. Segja má að þessi lög hafi verið fyrsta skrefið í átt til umhverfisverndar og bættrar umgengni við gróður landsins.

Lögin um Skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands voru samþykkt á Alþingi 22. nóvember 1907. Á grundvelli þessara laga var forstjóri skógræktarmála landsins ráðinn og ráðherra gefin heimild til þess að skipa skógarverði.

Upphefð vor kom að utan

Þessa framsýni í upphafi aldarinnar má eflaust með rökum tengja almennri vakningu um málefni lands og þjóðar en þó ber að geta þess að sú hvatning sem kom róti á landgræðslu og skógræktarmálin í upphafi 20. aldar kom að utan. Dönskum sjóliðsforingja Carl Ryder blöskraði svo eldiviðarleysi Íslendinga að hann hafði frumkvæði að því að sækja um styrk til danska landbúnaðarfélagsins til þess að koma á fót skógræktartilraunum á Íslandi.

Saga skógræktar verður ekki rakin hér en á 100 ára tímamótum er rétt að staldra við nokkur atriði sem marka farveginn og stefnu í skógrækt hér á landi. Árið 1908 var Skógrækt ríkisins stofnuð og fyrsti skógræktarstjórinn ráðinn. Skógrækt ríkisins var svo helsta framkvæmdastofnun skógræktar nær alla 20. öldina. Árið 1930 var Skógræktarfélag Íslands stofnað á Þingvöllum og beitti það sér fyrir því að vekja áhuga almennings á skógrækt. Árið 1967 var stofnuð Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá en hún var að mestu leyti byggð fyrir rausnarlega þjóðargjöf Norðmanna.

Fljótsdalsáætlun um skógrækt komst á framkvæmdastig árið 1970 og markaði nýja stefnu, sem gerði bændum kleyft að stunda skógrækt sem búgrein og auka með því verðgildi jarða sinna. Fljótsdalsáætlunin varð svo undanfari fimm landshlutaverkefna í skógrækt sem fengu sérstaka löggjöf árið 1999. Með þeim lögum og síðari tíma breytingum (2006) fluttist framkvæmdaþáttur nýskógræktar að mestu leyti frá Skógrækt ríkisins yfir til bænda sem gerðu samninga við landshlutaverkefnin um framkvæmdir á jörðum sínum.

Á tímamótum er tilefni til þess að líta fram á veg og skoða framtíðina í ljósi þess sem áunnist hefur.

Nýir tímar

Núna liggur fyrir Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.  Þar eru blikur á lofti varðandi málefni Skógræktar ríkisins. Ráðgert er að Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins færist frá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti í umhverfisráðuneyti. Reyndar er gert ráð fyrir að landshlutaverkefnin, þar sem langmestu nýskógræktar  framkvæmdirnar eiga sér nú stað, verði áfram hjá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti. Þetta er vafasöm ráðstöfun og  erfitt er að sjá að megin markmiðum frumvarpsins um einföldun stjórnsýslu sé náð fram með þessum hætti.

Annað og miklu  vafasamara  er, að ákveðinn hluti í starfi  Skógræktar ríkisins á að verða áfram í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti. Hér er um að ræða þjóðskógana og lönd þau sem tilheyrt hafa Skógrækt ríkisins. Einnig er gert ráð fyrir að fjárveitingar til verkefna Rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá verði háðar samningi milli umhverfisráðuneytis og Landbúnaðar-og sjávarútvegsráðuneytis.

Ekki verður séð að þetta fyrirkomulag, verði það samþykkt óbreytt, leiði til þeirrar einföldunar að skipa skyldum málum undir eina stjórn eins og segir í fyrr nefndu í frumvarpi.  Fyrir eitt hundrað árum kom frumkvæði um skógræktarlög á Íslandi frá dönskum áhugamönnum um velferð Íslands. Nú er þörf á nýjum lögum um skógrækt á Íslandi. Ætla má að Alþingi Íslendinga sé í stakk búið til þess að semja lagafrumvarp sem byggir á þeirri þekkingu og reynslu sem eitt hundrað ára starf Skógræktar ríkisins grundvallast á. Lagafrumvarp sem bæði einfaldar, skýrir og skapar forsendur fyrir öflugu skógræktarstarfi á Íslandi í nánustu framtíð.


Höfundur hefur starfað við skógrækt á Íslandi í rúm 30 ár

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23/11 2007