Á aðalfundi Skógfræðingafélags Íslands 4. mars sl. var samþykkt að senda eftirfarandi ályktun til Landbúnaðarháskóla Íslands:
 
Skógfræðingafélag Íslands fagnar auglýsingu Landbúnaðarháskóla Íslands um stöðu prófessors á sviði skógræktar og landgræðslu við skólann.  Efling skógfræði er eitt af helstu markmiðum Skógfræðingafélagsins og vill félagið hvetja til þess að góð skógfræðiþekking umsækjenda verði höfð að leiðarljósi þegar ráðið verður í stöðu prófessors.  Félagið lýsir yfir áhuga á að styðja og taka þátt í mótun og uppbyggingu skógfræðináms við Landbúnaðarháskóla Íslands.


Greinargerð:
Eitt af markmiðum Skógfræðingafélags Íslands er að efla félagsmeðlimi faglega séð og skal unnið að því markmiði bæði af félaginu sjálfu en einnig í samstarfi við aðrar stofnanir og samtök.  Skógfræðingafélagið tekur menntamál skógfræðinga alvarlega því að mörgu ber að huga til þess að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til námsins.

Á aðalfundi var jafnframt kosið í Menntanefnd félagsins.  Eitt af hlutverkum hennar er að koma á samstarfi við menntunardeildir háskólanna.  Í nefndina voru kosnir Þorbergur Hjalti Jónsson, Náttúrufræðistofnun Íslands og Hreinn Óskarsson, Skógrækt ríkisins.