Blaðið birti eftirfarandi frétt og viðtal við Halldór Sverrisson sérfræðing í plöntusjúkdómum hjá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins 13. mars

Aspir kynbættar til að þola ryðsvepp

Vaxtarskilyrði ryðsvepps mest í vætu og hlýindum

„Ryðsveppir eru til í fjölmörgum tegundum og sumar trjátegundir hafa fleiri en eina tegund ryðsvepps" segir Halldór Sverrisson sérfræðingur í plöntusjúkdómum. „Ryðsveppur leggst helst á birki og víðitegundir en á síðustu 15 árum hafa tveir nýir ryðsveppir borist til landsins. Annar leggst á gljávíði sem er innflutt víðitegund en hin leggst á alaskaösp. Sveppirnir lifa á laufblöðum plantnanna og fá næringu sína úr frumum þeirra. Einkenni ryðsvepps eru duftkenndir gulleitir blettir á laufblöðunum sem minna að sumu leyti á ryð á járni.

Ryðsveppurinn er mest áberandi síðsumars og hefur veðrið áhrif á það hversu útbreiddur hann verður. Ryðsveppur þarf vætu til að spíra, og ef veður er bæði vott og hlýtt þá blómstra sveppirnir."

Halldór segir að ef ryðsveppurinn sé slæmur og komi snemma sumars dragi það mátt og orku úr trénu og geti valdið því að það vex minna og verður ekki eins vel búið undir veturinn. ,Í versta falli getur sveppurinn valdið kali á trénu á veturna og þá aflagst tréð í vextinum en jafnar sig á ákveðnum tíma. Þeir ryðsveppir sem verið hafa hvað lengst á Íslandi finnast í birki og víðitegundum. Þessir sveppir eru mjög algengir en nýju sveppirnir eru bundnir við þær tegundir sem eru innfluttar. Ryðsveppir eru algengastir á Suðurlandi m.a. á Selfossi, í Hveragerði og í uppsveitum Árnessýslu. Ryðsveppurinn hefur ekki náð sér eins vel á strik í Reykjavík það sem veður er þurrara hér en fyrir austan fjall.”

Halldór segir mjög erfitt að koma í veg fyrir ryðsvepp á stórum trjám en á tegundir eins og víðiilmgerði séu til efni sem hægt sé að nota. „Ryðsveppur byrjar sem blettur á laufblaði og þegar sveppurinn er mikill tekur hann alveg yfir laufblaðið og getur verið lýti á plöntunni eins og myndirnar bera með sér. Ryðsveppurinn er mest áberandi í ágúst og september. Ef ryðsveppur gerir vart við sig á öspum skiptir miklu máli hvort lerki sé nálægt því ryðsveppurinn getur smitast á milli plantna með laufblöðum á jörðinni. Ryðsveppurinn getur einnig smitast milli aspa.

Í fyrra kom upp ryðsveppur á svokölluðum Hreggstaðavíði sem er blendingur af brekkuvíði og viðju. Ryðsveppur getur komið á allar plöntur þangað til þær ná að vinna á sig mótstöðu. Nú er verið að vinna við að kynbæta öspina þannig að hún myndi þol til að þola ryðsveppinn: “ Halldór segir að það muni ekki líða mörg ár þar til fólk getur farið að kaupa klónaðar aspir sem þola ryðsvepp.

(Blaðið, 13. mars 2006. Höfundur: Hugrún)