Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er eftirfarandi frétt um mikinn trjávöxt í sumar og viðtal við Þröst Eysteinsson, þróunarstjóra Skógræktar ríkisins:

"Þetta er búið að vera langt og gott sumar og við erum að sjá býsna langa sprota á mjög mörgum trjátegundum," segir Þröstur Eysteinsson, þróunarstjóri Skógræktar ríkisins. Hann segir að þó sé þurrkur sums staðar á landinu, einkum á norðaustanverðu landinu sem gæti gert ungum plöntum erfitt fyrir. Þá eru talsverðar skemmdir af völdum trjámaðks á Norður- og Austurlandi frá fyrri hluta sumars, en það er þó ekki jafnslæmt og í fyrra, að sögn Þrastar.

"Hingað til hefur vöxtur verið mjög góður hjá flestum tegundum og við erum nú þegar farin að sjá metralanga sprota á öspum og þeir eiga eftir að lengjast. Þá erum við að sjá sprota á grenitegundum og furu sem eru fleiri tugir sentimetra að lengd. Lerkið sem fór illa, sérstaklega hérna á Austurlandi í fyrra, er að ná sér og er fagurgrænt og fallegt. Þannig að það eru engar langvarandi skemmdir frá maíhretinu í fyrravor," segir Þröstur.

Þar sem búist er við metvexti í sumar mun Skógrækt ríkisins leita sérstaklega eftir upplýsingum um lengd árssprota hinna ýmsu trjátegunda þegar hausta tekur. "Við viljum gjarnan fá að vita hversu mikið tré hafa vaxið, því við teljum að þetta sé með betri sumrum sem við höfum upplifað og við ættum að sjá metvöxt hjá sumum trjátegundum í sumar," segir Þröstur.

Hann segir að trjávöxtur hafi verið mældur reglulega og Skógræktin hafi dæmi um rúmlega metra ársvöxt hjá greni og lerki og um árssprota á annan metra hjá öspinni.