Þór skógarvörður með sælusvip í faðmlagi við lindifuru í Trjásafninu Hallormsstað. Ljósmynd af ruv.i…
Þór skógarvörður með sælusvip í faðmlagi við lindifuru í Trjásafninu Hallormsstað. Ljósmynd af ruv.is
Sem kunnugt er hvetur Skógræktin fólk til að leita huggunar gegn veiruáhyggjum með því að knúsa tré. Í trjásafninu á Hallormsstað var snjó rutt af skógarstígum til að auðvelda fólki að nálgast trén og stunda útivist og hreyfingu í skóginum.
 
Fjallað var um þetta í fréttum Sjónvarpsins og rætt við Þór Þorfinnsson skógarvörð og Bergrúnu Örnu Þorsteindóttur aðstoðarskógarvörð. Þór lýsir því hvernig
straumurinn fer um allan líkamann þegar hann knúsar tré. Gefum fréttamanninum orðið, Rúnari Snæ Reynissyni.
 
Þaðer sælusvipur á skógarverði þegar við hittum hann í trjásafninu. Hann er að tengja sig við straumríka lindifuru og ekki í fyrsta sinn. „Maður finnur þegar maður faðmar að þetta byrjar í tánum og upp leggina og upp búkinn og svo upp í heilann. Maður fær svona góða afslöppunartilfinningu og er tilbúinn í nýjan dag og nýjar áskoranir,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi.
 

Ekki hægt að knúsa með hraði

Vegna smithættu er fólk nú beðið að forðast snertingu og nánd en þá breiða trén út faðminn. Knúsið má alls ekki vera of stutt. „Svona fimm mínútur er mjög gott ef þú getur gefið þér fimm mínútur af deginum til þess að faðma þá er það alveg nóg. Þú getur líka gert það oft á dag. Það er ekkert verra en einu sinni dugar alveg fyrir daginn og jafnvel nokkra daga. Sérstaklega á sumrin,“ segir Þór en hans reynsla er að trén gefi meiri orku á sumrin.

Ruddu stíg með tveggja metra breiðri tönn

Í trjásafninu á Hallormsstað eru um 90 tegundir og mörg stór og voldug tré, yfir hundrað ára gömul. Margir hafa lagt leið sína þangað síðustu vikur eftir að skógræktin hóf að ryðja skógarstígana. „Það er mælst til þess að fólk stundi útivist á þessum verstu tímum sem eru að ganga hér yfir á Íslandi og af hverju ekki að njóta skógarins og að geta knúsað tré og fá bara orkuna úr þessu svæði. Við erum með tveggja metra tönn sem við ryðjum svæðið með svoleiðis að það á að vera hægt að mætast með tveggja metra bili,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað.

Varasamt að margir knúsi sama tréð

Ákveðna aðgæslu þarf til að vinsæl knústré beri ekki smit. „Nóg er nú af trjánum þannig að fólk þarf ekki að faðma sama tréð. Heldur eitthvert tré sem það finnur ekki endilega við göngustíginn og er gott að fara inn í skóg. Það þarf ekki að vera stórt og svert. Það má alveg vera í öllum stærðum en aðalatriðið er að knúsa það dálítið. Það er mjög gott líka að loka augunum á meðan maður er að faðma eða knúsa tré. Ég halla nú kinninni að trénu og finn hlýjuna og straumana streyma frá trénu yfir í mig. Það er alveg greinilegt,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson