The New York Times sagði frá því um helgina að fjárlög Bush-stjórnarinnar feli í sér uppboð á um 300 þús ekrum (122 þús. ha.) alríkisskóga í 41 fylki í því markmiði að þéna a.m.k. 800 milljónir dollara. Féð á að koma í stað skógarhöggstekna, sem runnu að hluta til skólahalds í byggðum staðsettum inni í skógunum. Ekki hafa verið greiddir skattar af alríkiseignum, s.s. skógum, til byggðanna, heldur runnu skógarhöggstekjur þangað í staðinn. Skógarhögg hefur hins vegar minnkað í kjölfar dómsúrskurða til verndar dýra- og gróðurtegundum í útrýmingarhættu og tekjur af því þar með.

Þessu til viðbótar stefnir alríkisstjórnin á sölu um 500 þús. ekra í umsjón Innanríkisráðuneytisins eingöngu til að minnka fjárlagahallann. (mynd: the Theodore Roosevelt Organization)


The New York Times varar stórlega við þessu, segir að það sé yfirleitt ekki talið skynsamlegt að ganga á eignir til að lækka rekstrarkostnað, og verra sé þegar þjóðskógarnir eiga í hlut.

Þjóðskógarnir stofnaðir til að hindra skógareyðingu og rántöku almenningseigna

Í þessu sambandi er vert að skoða stærð þjóðskóga BNA. Þeir þekja um 193 milljónir ekra (71,2 milljónir ha) og verður því ekki stór hluti þjóðskóganna seldur í þessari umferð ná áætlanir fram að ganga.

Hins vegar er sala á hlutum í skógunum í andstöðu við þá stefnu sem tekin var upp snemma í sögu þjóðskóganna, þ.e. vernd þessara vistkerfa og náttúruauðlinda í almannaþágu.

Saga þjóðskóganna er fróðleg, því það var annar forseti Bandaríkjanna,  Theodore Roosevelt (1901-09) (mynd: theodoreroosevelt.org) og Gifford Pinchot fyrsti skógarstjóri BNA sem bættu verulega við þjóðskógana í skyndingu áður en hópar sérhagsmunaseggja, eins og Roosevelt orðaði það, kom lögum í gegn sem veitti einkaaðilum skógarhöggsaðgang að stórum skógum. Roosevelt var andsnúinn óheftri nýtingu náttúruauðlinda, og vann stíft að viðhaldi (conservation) náttúruauðlinda í gegnum ýmsa nefndarvinnu þrátt fyrir mikla andstöðu og hótanir nýtingarsinna. Svo rammt kvað að andstöðu að þingið bannaði árið 1909 forsetanum stofnun frekari nefnda án síns leyfis. Roosevelt tókst þó að hindra frekari einkanýtingu kola-, málm-,olíu-, fosfats- og vatnsorkugefandi svæða á sínum embættisferli.

(Ingimundur Stefánsson)

Heimildir:

      The Theodore Roosevelt Organization

      The International Herald Tribune

      The United States Forest Service

      US Parks Service

      US Forest Service