Aðalsteinn Sigurgeirsson skógerfðafræðingur ritar grein um þetta oft eldfima efni í nýútkomið Skógræktarrit, 2.tbl. Eins og Aðalsteins er siður er viðfangsefnið ekki tekið neinum vettlingatökum, fast kveðið að orði og víða borið niður.

Í greininni segir m.a. að það virðist í mannlegu eðli að hræðast hið óþekkta og framandi, s.s. nýbúa frá framandi menningarheimi. Vitnað er í ummæli ýmissa vist- og líffræðinga íslenskra um „ágengar“ „erlendar“ trjátegundir, „líffræðilega útlendingafælni“ og slíkum trjátegundum er speglað með menningarárekstrum og „náttúruvernd“. Aðalsteinn setur stórt spurningamerki við túlkun gagna um vistfræðileg áhrif „innrásarplantna“, skaðsemi þeirra og ógagn. Hann imprar á sögu trjátegunda á Íslandi, breytingu skógarflórunnar frá fjölbreyttum barr- og laufskógum tertíertíma til fábreyttari birkiskóga á nútíma.

Aðalsteinn ræðst á hugmyndir um jafnvægi í náttúrunni og einingu náttúrunnar og skrifar að „Þvert á móti einkennist náttúran og öll saga hennar fremur af eilífri ringulreið og umróti“.  Þá er bent á efasemdir um vísindagildi „innrásarlíffræði“ (e. invasion biology), og nefndir kostir slíkra innrása fyrir líffræðilega fjölbreytni, s.s. með auknu þanþoli lífkerfa í heimi hlýnandi loftslags. Að lokum má nefna þá ályktun Aðalsteins að innfluttar trjátegundir á Íslandi falli ekki undir hugtakið „ágengar framandi tegundir“, m.a. sökum raskandi áhrifa mannsins á umhverfi og náttúrufar Íslands.

 Áhugasamir geta nálgast Skógræktarritið hjá Skógræktarfélagi Íslands, www.skog.is.