Ráðstefnan "Staða og framtíð alaskaaspar á Íslandi" var laugardaginn 5. mars sl., í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, í Vatnsmýrinni í Reykjavík, í tengslum við fulltrúafund skógræktarfélaganna.

Nú eru fyrirlestrarnir flestir aðgengilegir HÉR, á sérstakri síðu Skógræktarfélags Íslands sem helguð er ráðstefnunni.

Að ráðstefnunni stóðu Skógræktarfélag Íslands og Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, í samvinnu við Skógfræðingafélag Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Mynd frá ráðstefnunni (Jóhann Frímann Gunnarsson)

Heiðursgestur ráðstefnunnar var Haukur Ragnarsson, fyrrv. forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá.

Ráðstefnan var vel sótt og fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir. Í lok ráðstefnunnar fóru fram gagnlegar umræður sem snerust einkum um kosti alaskaaspar sem hraðvaxta, hávaxins trés í þéttbýli.

Niðurstaða þeirra umræðna var sú að gróðursetja þurfi mun meira af alaskaösp og öðrum hraðvöxnum, hávöxnum trjátegundum í íslensku þéttbýli. Einnig að ótvíræðir kostir alaskaapar vegi mun þyngra en "gallar" sem tíndir hafa verið til í umræðum og skrifum er bera vitni um vissa vanþekkingu og hleypidóma.

Samþykkt var að senda eftirfarandi yfirlýsingu til fjölmiðla:

"Ráðstefna um stöðu og framtíð alaskaaspar á Íslandi, haldin í Reykjavík 5. mars 2005 af Skógræktarfélagi Íslands, Skógrækt ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógfræðingafélagi Íslands, hvetur til þess að stærri sveitarfélögin í landinu skapi og sjái til þess að nægilegt rými verði til aukins og stærri trjágróðurs í þéttbýli. Með aukinni og markvissri gróðursetningu er stuðlað að:

· Meira skjóli
· Minni rykmengun
· Minni hávaða
· Fegurra umhverfi
· Bættri heilsu og vellíðan íbúa."

Ráðstefnustjórar voru Guðbrandur Brynjúlfsson, formaður Landgræðslusjóðs og stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Íslands og Ólafur Arnalds, deildarforseti Umhverfisdeildar í Landbúnaðarháskóla Íslands.