Jarðvegseyðing í Kína; hádegisfyrirlestur 22. júní k. 12.00, Norræna húsið í Reykjavík

Fenli Zheng, rannsóknaprófessor við Jarðvegsverndarstofnunina í Yangling í Kína, flytur hádegisfyrirlestur í Norræna húsinu í Reykjavík þriðjudag 22. júní kl. 12.00. Zheng mun fjalla um landhningun og varnir gegn jarðvegseyðingu í Kína. Landvernd og Landgræðslan boða til þessa fyrirlestrar.

Landhnignun og eyðimerkurmyndun er einhver alvarlegasti umhverfisvandi heimsins. Til að efla samstöðuna í baráttunni gegn þessum vágesti hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað 17. júní ár hvert verndun jarðvegs, en aþjóðlegi samningurinn um varnir gegn myndun eyðimarka (Convention on Combating Desertification, CCD) var undirritaður þennan dag árið 1994.

Kínversk stjórnvöld telja að jarðvegseyðing sé alvarlegasti umhverfisvandinn í Kína. Stjórnvöld voru sein til aðgerða og löggjöf til varnar jarðvegseyðingu var fyrst samþykkt árið 1991. Nú hafa kínverskir stjórnarherrar hins vegar bætt um betur og tífaldað fjárframlög á síðustu þremur árum svo sporna megi við landeyðingu.

Ein af ástæðum þess að kínversk stjórnvöld hafa nú viðurkennt vandann og gripið til varna er sú að vandamálið bankaði í orðsins fylltu merkingu á dyr stjórnarherranna. Vegna uppblásturs hefur mikil fokmold fokið yfir Beijingborg. Í ein einum storminum er talið að yfir 20 þúsund tonn af jarðvegi hafi fokið yfir höfuðborgina með þeim afleiðingum að menn fóru um tíma vart út úr húsum nema hafa varnir fyrir vitum. Aðeins 60 kílómetrum norður af Beijing eru hús að fara í kaf vegna uppblásturs sem er svipað ástand og Íslendingar upplifðu t.d. á Rangárvöllum og í Landsveit fyrir rúmum100 árum. Nágrannaþjóðirnar eru farnar að beita Kínverja þrýstingi, því fokmold vegna uppblásturs hefur borist allt til Kóreu og Japans og valdið fólki öndunarerfiðleikum þar. Kínverjar eru nú farnir að beina stórum hluta af skógræktarstarfinu að því markmiði að vernda viðkvæman jarðveg,

Sameinuðu þjóðirnar hafa upplýst að eyðimerkurvofan ógni nú lífsafkomu um 1.200 milljón manns víða um heim, en verst er ástandið í Afríku, Asíu og þeim löndum sem áður mynduðu Sovétríkin. Talið er að um 20 milljarðar tonna af jarðvegi glatist á ári hverju. Frjósemi jarðvegsins, sem er undirstaða fæðuöflunar fyrir jarðarbúa, hnignar ört og vatnsmiðlun hrakar á stórum svæðum.

Í tilefni af alþjóðlega jarðvegsverndardeginum hafa Landgræðsla ríkisins og Landvernd haft forgöngu um þrjá hádegisfyrirlestra þar sem þessi mál verða til umfjöllunar. Fyrirlesarar koma frá Suður Afríku, Kína og Íslandi. Fyrirlestur Zheng er sá síðasti.

Hádegisfyrirlesturinn er opinn og aðgangur ókeypis.

Heimild: Vefur Landverndar