Fréttir Ríkissjónvarpsins, mánudaginn 12. júlí.

Forsvarsmenn Skógræktar ríkisins segja skógrækt ekki hafa verið stundaða innan þinghelgi Þingvalla. Barrtrjám og öðrum trjágróðri hafi hins vegar verið plantað við hús. Þeir segja að rætur sjálfsáinna birki- og reynitrjáa jafnslæmar fyrir fornleifar og rætur barrtrjáa.

Adolf Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands sagði í fréttum Sjónvarps [sunnudaginn 11.7.] það vera alþekkt vandamál í fornleifafræði að skógrækt færi ekki vel saman við þekkta fornminjastaði. Forsvarsmenn Skógræktar ríkisins segja þetta tvennt fara ágætlega saman.

Þröstur Eysteinsson, þróunarstjóri Skógræktar ríkisins: Hjá Skógrækt ríkisins viljum við meina að skógrækt fari ágætlega saman við fornleifavernd. Eins og sést hérna á bakvið mig [við rjóður í skógi á Fljótsdalshéraði, þar sem rústir er að finna] sést hvernig við gerum hlutina í dag. Við teiknum inn á kort þar sem við finnum fornleifar og forðumst síðan að gróðursetja í þær.

Haraldur Bjarnason: Á að fjarlægja tré á Þingvöllum?

Þröstur Eysteinsson: Í stefnumörkun um Þingvelli stendur: ?Gróður sem ekki er upprunninn á Þingvöllum verði fjarlægður úr þinghelginni, s.s. aspir og barrtré og á þeim stöðum þar sem slíkur gróður er nærri markverðum menningarminjum.?  Þegar talað er um þinghelgina er um að ræða 5 hektara svæði við ósa Öxarár og í kringum Þingvallabæinn. Þar er útaf fyrir sig ekki um neina skógrækt að ræða, heldur garðrækt. Þar voru tré gróðursett í garð Þingvallabæjarins árið 1944 og það var gert af þjóðgarðsverðinum á Þingvöllum, m.a. til þess að lífga upp á umhverfi sitt. Það er útaf fyrir sig ekki hægt að kalla það skógrækt og ef að einhver slík tré þurfa að víkja vegna fornleifaupprgöfts, þá er það í góðu lagi út frá sjónarmiði skógræktar. Þröstur segir að hins vegar séu víða á Þingvöllum gróðursettir skógar sem ekki séu víðáttumiklir en hafi menningarlegt og sögulegt gildi eins og furulundurinn [gróðursettur 1899], Norðmannareitur [gróðursettur 1949] og fleira.

Haraldur Bjarnason: Barrtré á Þingvöllum eru mörgum þyrnir í augum og talað hefur verið um að þar eigi aðeins að vera gróður af íslenskum uppruna.

Þröstur Eysteinsson: Varðandi barrtré og fornminjavernd, þá er eins og sumir haldi að birki og reyniviður hafi ekki rætur. Rætur þeirra tegunda flækjast fyrir fornleifafræðingum ekki síður en rætur barrtrjáa.