Um helgina (18.-19. Nóv.) var haldið fyrsta námskeiðið af fimm Grænni skóga námskeiðum sem verða haldin þennan vetur. Námskeiðið var um Ungskógarumhirðu og var það haldið í Fræðsluneti Austurlands á Egilsstöðum.

Leiðbeinendur á námskeiðinu voru skógfræðingarnir Lárus Heiðarsson, Skógrækt ríkisins og Agnes Brá Birgisdóttir hjá Héraðsskógum.

Innihald námskeiðsins var umhirða ungskóga s.s. snyrting, tvítoppaklipping, kvistun og fyrsta grisjun. Einnig var kynnt þau tæki og tól sem henta og leiðbeint með notkun þeirra. Námskeiðið var mjög vel uppbyggt hjá þeim Agnesi og Lárusi. Á föstudaginn var farið yfir fyrrnefnd atrið í fyrirlestrar formi. Einnig kynnti Agnes Brá helstu niðurstöður úr lokaverkefni sínu, sem fjallar um þéttleika og gæði í 10-15 ára gömlum lerkiskógi á Héraði. Þessar niðurstöður í lokaverkefni Agnesar Brá eru mjög áhugaverðar og þar kemur fram að sá þéttleiki sem gróðursettur hefur verið er vænlegastur hvað gæði lerkiskógarins varðar.

Á laugardaginn kynnti Lárus og sýndi þátttakendum mismunandi grisjunar aðferðir sem hann notaði s.l. vetur á Droplaugarstöðum. Námskeiðinu lauk inn á Valþjófsstöðum II með verklegri kennslu, mældur var þéttleiki skógar, valin út tré sem þarf að grisja burt, snyrting og afkvistun á þeim trjám sem eiga að standa til lokahöggs.