Föstudaginn 30.mars undirrituðu Skúli Björnsson framkvæmdastjóri Barra hf á Egilsstöðum og Hreinn Óskarsson Skógarvörður Skógræktar ríkisins á Suðurlandi, leigusamning um leigu Barra hf á ræktunaraðstöðu á Tumastöðum í Fljótshlíð. Gróðrastöðin á Tumastöðum er elsta starfandi gróðrastöð í Rangárvallasýslu stofnuð 1944 og var meðal þeirra stærstu hér á landi á árum áður. Starfsemi hefur dregist mjög saman á síðustu 10 árum bæði vegna minnkaðra umsvifa Skógræktarinnar og ákvörðunar Landbúnaðarráðherra þess efnis að Skógræktin hætti framleiðslu skógarplantna til sölu á almennum markaði.

Í ljósi skorts á trjáplöntum á Suðurlandi síðustu ár óskaði Barri hf eftir samningaviðræðum um leigu á stöðinni s.l. haust, sem endaði með áðurnefndum samningi. Stefnt er að því að auka árlega ræktun úr 100-200 þús. plöntum upp í rúmlega 700 þúsund strax í sumar. Þetta þýðir nokkur fjölgun starfa í stöðinni. Einnig ætlar Barri að opna aftur trjáplöntusölu á Tumastöðum. Mest áhersla verður lögð á ræktun trjáa í fjölpottabökkum. Ræktunarstjóri Barra verður Hrafn Óskarsson sem hefur lengi unnið sem verkstjóri á Tumastöðum.

Skógrækt ríkisins verður áfram með starfsemi á Tumastöðum og mun Theodór A. Guðmundsson áfram verða verkstjóri Skógræktarinnar á staðnum. Öðru starfsfólki sem unnið hefur í stöðinni verður boðið starf hjá Barra. Á Tumastöðum er margvísleg önnur starfsemi en trjáplönturæktun. Þar er t.d. safnað miklu trjáfræi og græðlingum af ýmsum innlendum trjátegundum sem selt er gróðrastöðvum um allt land. Skógræktin á Tumastöðum hefur umsjón með trjásöfnum bæði á Tumastöðum og í Múlakoti, auk skóga í löndum Tumastaða, Kollabæjar og Tungu í Fljótshlíð.