Verðlaunahafar samtaka norskra skógareigenda í ár. Álfsól Lind Benjamínsdóttir er lengst til hægri. …
Verðlaunahafar samtaka norskra skógareigenda í ár. Álfsól Lind Benjamínsdóttir er lengst til hægri. Lengst til vinstri er Geir Pollestad ráðherra, þá Kari Mørck, Håkon Sandum, Erling Lundberg og loks Álfsól Lind. Mynd af vefnum skog.no.

Álfsól Lind Benjamínsdóttir skógfræðingur hlaut nýverið hæstu einkunn á meistaraprófi í skógfræði frá NMBU, norska landbúnaðarháskólanum að Ási. Fyrir afrekið hlaut hún veglegan styrk frá samtökum norskra skógareigenda.

Árlega veita samtökin Norges Skogeierforbund framúrskarandi nemum í skógartengdum greinum viðurkenningar fyrir góðan árangur. Að þessu sinni fór athöfnin fram 30. nóvember. Viðurkenningarnar eru peningastyrkur undir kjörorðunum Velg Skog eða „veljið skóg“. Athöfnin á fimmtudag fór fram í norska matvæla- og  landbúnaðarráðuneytinu og sá ráðherrann, Geir Pollestad, um afhendingu styrkjanna.

Í frétt á vef Norges Skogeierforbund kemur fram að ráðherra hafi við afhendinguna talað um mikilvægi þess að vel væri haldið utan um skógarauðlindir landsmanna. „Skógargeirinn þarf á fólki eins og ykkur að halda,“ sagði hann við þau nýútskrifuðu.

„Ég held að þið hafið valið ykkur traustan starfsvettvang til framtíðar. Þið munuð starfa við nokkuð sem er framtíð efnahagslífsins, framtíð loftslagsmálanna. Mörg fyrirbæri falla úr tísku en ég held að ljóstillífun verði í tísku í tvö, þrjú ár í viðbót, jafnvel fjögur. Sennilega að eilífu,“ sagði ráðherrann á gamansömum nótum.

Veitt voru verðlaun fyrir besta BS-verkefnið sem fjallaði um endurnýjun skógar. Þar hlaut verðlaun nemi frá Inland-háskólanum í Evenstad, Erling Lundberg, 25.000 norskar krónur. Tveir nemendur fengu að þessu sinni verðlaun fyrir hæstu einkunn brautskráðra nemenda við NBMU, þau Álfsól Lind Benjamínsdóttir og Håkon Sandum, 50.000 krónur norskar hvort. Sömu upphæð hlaut Kari Mørck fyrir góðan námsárangur og annað eins fyrir að hafa skrifað bestu meistararitgerðina. Hún skrifaði um breytileika í myndun haustsprota í greni. Meistaraverkefni Álfsólar snerist hins vegar um þróun aðferða við að koma svepprótarsmiti inn í ræktunarferla í skógarplöntuframleiðslu.

Heimild: Vefur Norges skogeierforbund
Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson