Myndin sýnir jarðýtur sem notaðar voru s.l. föstudag til þess að grafa sundur skógræktarsvæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og undirbúa þar nýja íbúðabyggð, s.k. Krikahverfi. Mynd: Ingimundur Stefánsson.

Útþensla borga og bæja (e. „urban sprawl“) er alþjóðlegt umhverfisvandamál. En slík útþensla þéttbýlis virðist ekki bundin við þéttbýlu löndin í suðri, heldur virðist hún einnig stefna umhverfi okkar annars strjálbýla lands í óefni. Egill Helgason  hefur t.d. sagt að „Borg sem þenur sig út um allar grundir er talin vandamál. Henni fylgir óskapleg orkusóun, bruðl með dýrmætt land og óhófleg eyðsla á tíma borgaranna“. Ein afleiðing útþenslu höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum er sú, að farið er að fórna svæðum í og við þéttbýli sem áður hafa verið markvisst grædd skógi til þess að gera þau að aðlaðandi útivistarsvæðum til frambúðar (lesa má nánar um slík dæmi HÉR). Með slíkri stefnu sveitarfélaga er ljóst að íbúunum er gert erfiðara að njóta skjóls og útivistar í framtíðinni; þeir verða a.m.k. að leita langt yfir skammt eftir útivistartækifærum í fögru og skógi vöxnu umhverfi.

Í Morgunblaðinu í dag (23/1) birtist eftirfarandi grein frá landlæknisembættinu sem erindi á inn í þessa umræðu. Greinin er skrifuð af Önnu Björgu Aradóttur, yfirhjúkrunarfræðingi Landlæknisembættisins. Fjallar greinin um þýðingu grænna svæða í og við þéttbýli til þess að draga úr streitu og efla heilsu og vellíðan almennings. Hollensk rannsókn sem hún vitnar til sýndi að græn svæði í íbúðahverfum hafði heilsubætandi áhrif á íbúana og þá skipti ekki hversu góð þau voru heldur aðeins að þau væru þar.

(AS)              

HOLLRÁÐ UM HEILSUNA | Landlæknisembættið (Morgunblaðið, mánudaginn 23. janúar 2006).

Virkjum náttúruna fyrir heilsuna
Mikið er rætt og ritað um orkuna sem náttúran býr yfir og hvernig hægt sé að beisla hana til að efla þjóðarhag. Yfirleitt er sjónum beint að orku sem getur gefið afl til iðnaðarframleiðslu, húshitunar eða annarra efnislegra þátta.

Hollensk rannsókn sýndi að græn svæði í íbúðahverfum eru heilsubætandi.

Mikið er rætt og ritað um orkuna sem náttúran býr yfir og hvernig hægt sé að beisla hana til að efla þjóðarhag. Yfirleitt er sjónum beint að orku sem getur gefið afl til iðnaðarframleiðslu, húshitunar eða annarra efnislegra þátta. Lítið hefur verið fjallað um hvernig náttúran getur bætt heilsu og vellíðan og dregið úr sjúkdómum. Ef litið er til þeirra tíma þegar berklar voru alvarlegt heilsufarslegt vandamál muna sumir að berklasjúklingar voru vistaðir á stofnunum þar sem aðgengi að fersku lofti og náttúru var hluti af lækningunni, eins og til dæmis á Vífilsstaðaspítala. Víst er að húsnæði þeirra tíma bauð upp á smit manna á milli vegna þrengsla, óhreininda og lélegrar loftræstingar. Því var það heilsubætandi að dvelja á stofnun þar sem allur aðbúnaður var með ágætum, ferskt loft og falleg náttúra við bæjardyrnar.
 
Gróðurinn hefur góð áhrif
Enda þótt húsakynni fólks séu nú almennt orðin betri benda rannsóknir til þess að sjúklingar sem dvelja á stofnun og hafa útsýni til náttúrunnar í stað steinsteypu eða manngerðra bygginga nái sér fyrr, séu rólegri og noti minna af verkjalyfjum en þeir sem það gera ekki. Bandarískur vísindamaður, Roger Ulrich, rannsakaði sjúklinga sem lágu á sjúkrahúsi vegna gallsteina og komst að því að þeir sem voru með útsýni með gróðri útskrifuðust fyrr en hinir og kvörtuðu síður.
Hafa ber í huga að lausnin er ekki eingöngu sú, eins og í þá gömlu góðu daga, að hafa garða við sjúkrastofnanir. Í dag liggja flestir sjúklingar aðeins í nokkra daga á stofnun og fara svo heim. Hönnuðir verða að huga að því við skipulag nýrra sjúkrastofnana að sjúklingar hafi útsýni til náttúrunnar, þótt fegurðin sé auðvitað alltaf afstæð. Jafnvel skiptir þá ekki öllu máli hvort útsýnið er raunverulegt eða á mynd sem brugðið er upp fyrir sjúklinginn meðan á rannsókn stendur eða þegar hann dvelur í sjúkraherbergi.

Græn svæði eru heilsubætandi
Náttúran bætir einnig heilsu sjúklinga sem ekki dvelja á stofnun og annarra sem vilja efla heilsu sína á einhvern hátt.
Útivist, hreyfing eða það að njóta náttúrunnar virðist draga úr streitu og auka vellíðan. Rannsóknir sýna jafnframt að græn svæði þurfa að vera aðgengileg og nálæg heimilum fólks til að það nýti sér hana. Hollensk rannsókn sýndi að græn svæði í íbúðahverfum hafði heilsubætandi áhrif á íbúana og þá skipti ekki hversu góð þau voru heldur aðeins að þau væru þar. Rannsóknir benda þannig til að náttúran, hvort sem hún er í formi pottaplantna, garða, útsýnis eða mynda, hefur bætandi áhrif á líðan fólks heima við og á vinnustöðum.
Hvort sem er á heilbrigðisstofnun, heima eða á vinnustað ætti að leitast við að gera fólki kleift að njóta náttúrunnar, til dæmis með aðgengilegum grænum svæðum, plöntum, útsýni eða náttúrumyndum. Það bæði bætir heilsu og eykur vellíðan.

Anna Björg Aradóttir, yfirhjúkrunarfræðingur Landlæknisembættinu.