Starfsmenn landshlutabundnu skógræktarverkefnanna sex (Austurlandsskógar, Héraðsskógar, Suðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar og Norðurlandsskógar) koma saman einu sinni á ári.  Þetta árið var komið að verkefnunum tveimur á Austurlandi (Austurlandsskógum og Héraðsskógum) að sjá um hið árlega landsmót

Sautján starfsmenn mættu galvaskir í hríðarhraglanda þann 5. október sl. og aðrir en gestgjafarnir vissu lítt hvað var framundan.  Dagskráin hófst á heimsókn til skógræktarstjóra, Jóns Loftssonar, en hann leiddi síðan hópinn í reiðtúr ásamt skógarverði sínum á Hallormsstað, Þór Þorfinnssyni.  Riðið var frá Stekkhólma inn í Hallormsstað og satt að segja var hálf kuldalegt að horfa á eftir hópnum leggja af stað á móti stífri norðanátt og kalsa.  Skógræktarmenn stefndu að sjálfsögðu beint að næsta skógi til skjóls og var það mál manna að þarna hefðu menn upplifað skóginn alveg á nýjan hátt. Á leiðinni var áð að Hafursá þar sem ábúandi, Þorkell Sigbjörnsson, tók vel á móti hópnum.  Komið var á leiðarenda á Hallormsstað við skógarvarðabústaðinn eftir nær þriggja tíma reiðtúr. Þar voru þáðar veitingar áður en landsmótsgestir héldu á Jökuldalinn. Það voru þreyttir en ánægðir skógræktarmenn sem settust að borðum á Skjöldólfsstöðum að kveldi en þar sem var borðað, spjallað, slegið á létta strengi og gist.

Að morgni 6.okt. var ferðinni heitið á svæði Austurlandsskóga og stefnan sett á Berufjörðinn, keðjur teknar með til öryggis áður en lagt var á Öxi í heimsókn til að skoða skógrækt Eyjólfsstöðum í Forsárdal og Teigarhorni.
Á Eyjólfsstöðum búa þau Hafliði Sævarsson og Guðný Gréta Eyþórsdóttir á samt þremur sonum sínum og foreldrum Guðnýjar.
Hafliði tók á móti landsmótsfólki og kynnti skógræktina á Eyjólfsstöðum.  Árið 1998 hófu þau Hafliði og Guðný skógrækt á jörð sinni og stefnt er á að gróðursetja í allt að 40 ha. lands.  Búið er að gróðursetja milli 50 og 60 þúsund plöntur.  Þær tegundir sem hafa verið gróðursettar eru birki, ösp, greni, fura, lerki og elri en það er virkilega gaman að sjá hvað elrið fer vel af stað.  Á jörðinni hafa einnig hafa verið lagðir um 5 km. af skjólbeltum sem eru orðin yfir þriggja metra há þau elstu.

Á Teigarhorni búa þau Herbert Hjörleifsson og Jónína Ingvarsdóttir ásamt börnum sínum.  Herbert tók á móti landsmótsfólki og sagði frá starfseminni á Teigarhorni en þar hófst skógrækt  haustið 2002 og stefnt er að gróðursetningu í um 170 ha. lands.  Herbert sagði að um þessar mundir væri verið að gróðursetja 100 þúsundustu plöntuna og það yrði birkiplanta sem myndi fylla þá tölu.  Þær tegundir sem gróðursettar hafa verið á Teigarhorni eru birki, fura, greni og lerki.  Þar vakti sérstaka athygli greni og birki sem voru gróðursett vorið 2003 í jarðunnið land og höfðu vaxið mjög vel.

Austurlandsskógar og Héraðsskógar vilja nota tækifærið og þakka öllum sem tóku á móti hópnum af miklum höfðingsskap.