Viðarkögglar úr íslensku viðarkurli. Kögglar úr hreinum viði brenna mjög vel og því nýtist orkan til…
Viðarkögglar úr íslensku viðarkurli. Kögglar úr hreinum viði brenna mjög vel og því nýtist orkan til fullnustu og sót verður í lágmarki.

Viðarkögglar úr hraðvaxta lauftrjám í Svíþjóð kæla jörðina

Brennsla viðarköggla úr hraðvaxta lauftrjám af sænskum ökrum vinnur gegn hlýnun jarð­ar. Öðru máli gegnir ef toppar og grein­ar eru notaðar til brennslunnar. Hvort tveggja er þó betra fyrir lofthjúpinn en jarð­kol. Þetta eru niðurstöður doktorsritgerðar sem unnin var við sænska landbúnaðar­háskól­ann SLU.

Æ meir er nú litið til lífeldsneytis sem orku­gjafa og hann komi í stað jarðefna­elds­neyt­is. Fram undan er alþjóðlegur dagur skóga 21. mars og hafa Sameinuðu þjóðirnar helg­að daginn skógum og orku að þessu sinni. Lífeldsneyti er endurnýjanlegt elds­neyti sem þýðir að í náttúrunni verður til nýtt í stað þess sem notað er, ný tré vaxa í stað þeirra sem höggvin voru í brenni og þar fram eftir götum. Í loftslags­bók­haldi er því að jafnaði litið sem svo á að líf­elds­neyti sé kolefnis­­hlutlaust. Málið er þó ekki alveg svona einfalt því í ljós hefur komið að talsverður munur getur verið á loftslagsáhrifum líf­elds­neytis eftir því hvers lags það er.

Frá þessu segir á vef Norsk fjernvarme, samtaka norskra fjarvarmaveitna og þar er vitnað í frétt á vef SLU. Bent er á að spurnin eftir viðarkögglum sem brenni í stað jarðefnaeldsneytis hafi vaxið mjög. Í takt við það hafi verið lífleg um­ræða um nytsemi slíks lífeldsneytis í baráttunni við loftslagsbreytingar. Umræðan helgast af því sem áður var nefnt að lífeldsneytið reiknast sem kolefnishlutlaust í loftslagsbókhaldinu. Það þýðir að koltvísýringurinn sem losnar við brennslu þess binst allur aftur í nýjum gróðri. Þar með er litið fram hjá þeim loftslagsáhrifum sem þessi koltvísýringur hefur meðan hann er í lofthjúpnum því það tekur stuttan tíma að brenna eldsneytinu en langan tíma fyrir plönturnar að binda kolefnið aftur í nýjum lífmassa.

Við þetta hefur Charlotta Porsö glímt í rannsóknum sínum við SLU. Í doktorsverkefni sínu notast hún við ákveðnar aðferðir til að meta þróun loftslagsáhrifa um lengri tíma þar sem bæði er tekið tillit til losunar vegna brennslu jarðefna­eldsneytis og eldsneytis af lífrænum uppruna. Sömu aðferð hefur hún svo nýtt til að reikna út loftslagsáhrif viðar­köggla úr mismunandi framleiðslu eða mismunandi uppruna.


Niðurstöðurnar sýna að framleiðsla og notk­un viðarköggla úr fljótsprottnum lauf­trjám er eitt af því sem getur stuðlað að lækkuðum meðalhita á jörðinni. Jafnframt eru slíkir viðarkögglar endurnýjanlegt brenni. Hér er átt við trjátegundir eins og aspir og selju ræktaðar á landbúnaðar­landi í Svíþjóð.

Trjákögglar af myrtutrjám (Eukalyptus) sem ræktuð voru á útjörð í Mósambík reyndust einnig hafa þessi kælandi áhrif á loftslag jarðarinnar, í það minnsta fyrsta kastið. Þessi kælingaráhrif á loftslagið helgast að hluta til af því að kol­tví­sýr­ingur úr andrúms­loftinu binst í lifandi lífmassanum en einnig hleðst kolefni upp neðanjarðar.

Útreikningar Charlottu Porsö sýna á hinn bóginn einnig að viðarkögglar sem gerðir eru úr afgöngum stuðli heldur að hlýnun loftslags en hitt. Samt sem áður hafa slíkir kögglar umtalsvert minna sótspor en kol úr jörðu. Frá sjónarhóli lofts­lagsins segir Charlotta Porsö því skynsamlegt að skipta kolunum út fyrir viðarköggla, hvort sem þeir eru unnir úr hrað­vöxnum trjám ellegar afgöng­um eins og greinum eða toppum sem falla til við skógarhögg og grisjun. Vitanlega kosti það orku að framleiða viðarköggla en orkan sem fáist við brennslu viðarköggla af þessum toga sé sjö til ellefu sinnum meiri en orkan sem fer í framleiðsluna. Orkugildið eykst við kögglun hráefnisins því kögglarnir hafa lægra rakastig og með því að köggla kurlið rúmast meiri orka í hverjum rúmmetra efnis. Þurrt kurl gefur í mesta lagi 80% af orku viðarköggla (1,9-4,1 MWh/tonn á móti 4,8 MWh/tonn).

Vegna þessa verkefnis hefur verið þróuð aðferð til lífsferilsgreiningar óháð tíma sem hjálpar mönnum að átta sig bet­ur á áhrifum mismunandi líforkukerfa á loftslagið. Aðferðina má að sögn nota til að meta annars konar framleiðslu­ferli eftir því sem fram kemur á vef SLU.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson