Gerður Guðmundsdóttir varði meistararitgerð sína í skógvistfræði föstudaginn 9. desember við Kaupmannahafnarháskóla (Dept. of Physiological Ecology). Leiðbeinendur Gerðar voru Bjarni Diðrik Sigurðsson og Helge Ro-Poulsen, sem m.a. hefur gert rannsóknir á trjám og runnum á Grænlandi. Að auki lögðu Arnór Snorrason og Bjarki Þór Kjartansson mikilvægar upplýsingar til verkefnisins.

Ritgerð Gerðar kallast upp á enska tungu “Photosynthetic response of variable light intensity, CO2 concentration and temperature in native and introduced broadleaved tree species in Iceland”. Í henni fjallaði Gerður um rannsóknir sínar á ljóstillífun allra íslensku trjátegundanna (birkis, reyniviðar, gulvíðis og blæaspar) og bar saman við nokkrar innfluttar tegundir (alaskaösp og gráelri). Ljóstillífun er annað orð yfir kolefnisupptöku, en hún er fyrsta skrefið í vaxtarferli trjáa og ræður oft miklu um vaxtarhraða þeirra.

Gerður fann sterkt samband milli ljóstillífunargetu mismunandi tegunda og meðalvaxtarhraða þeirra á Íslandi við 50 ára aldur (gögn frá Arnóri Snorrasyni). Alaskaösp, reyniviður og síðan blæösp höfðu hæsta ljóstillífunargetu (þ.e. gátu bundið kolefni hraðast).  Birki reyndist hafa lægsta ljóstillífunargetu við 5-20 °C laufhita, en á óvart kom að það hafði hæst kjörhitastig allra tegundanna, eða um 35 °C. Það er nákvæmlega sama kjörhitastig ljóstillífunar eins og hjá hengibjörk, sem er náskyld láglendistegund í Skandinavíu. Það er reyndar þekkt að birki er sértaklega aðlagað að lágum jarðvegshita og getur tekið upp næringarefni úr jarðvegi við lægra hitastig en flestar aðrar trjátegundir. Það virðist því að sú aðlögun geri birkinu kleyft að tóra upp í skógarmörkum í Skandinavíu þar sem það lætur undan á láglendi í samkeppni við aðrar hávaxnari trjátegundir, þó að vaxtarhraði þess sé þar mjög takmarkaður af hægri kolefnisupptöku vegna lágs hitastigs. Þessar niðurstöður geta að hluta útskýrt þann mikla breytileika sem er í vaxtarhraða birkis milli staða og hæðar yfir sjó hérlendis.

Alaskaösp reyndist hafa lægst kjörhitastig ljóstillífunar, eða um 25 °C, og útskýrir það að hluta hversu vel sú tegund getur vaxið hérlendis þar sem jarðvegsraki og frjósemi er nægileg.

Hluti af niðurstöðum Gerðar hafa birst á íslensku í Riti Fræðaþings landbúnaðarins 2005 sem finna má undir greinasafni á www.landbunadur.is og munu brátt koma út sem vísindagrein á ensku í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences (sem áður hét Búvísindi). Greinina má fljótlega nálgast rafrænt á heimasíðu ritsins, www.ias.is .

Gerður er nú búsett á Norðfirði ásamt manni sínum, Grétari Þór, og hefur í sumar og haust unnið hjá Mógilsá innan rannsóknaverkefnanna SKÓGVIST ( www.skogur.is/page/icewoods ) og  Norræna öndvegissetursins um kolefnisrannsóknir (www.necc.nu ) sem fram fara á Fljótsdalshéraði.  Hún mun nú senn taka sér vel verðskuldað fæðingarorðlof og gerir því hlé á rannsóknastörfum sínum í bili. Austurland á í Gerði mikið efni í góðan fræðimann og Mógúlar vilja nota tækifærið til að þakka henni einstaklega gott samstarf og óska henni alls hins besta í framtíðinni.