Benjamín Örn Davíðsson skógfræðingur hefur verið ráðinn í starf aðstoðarskógarvarðar við embætti skógarvarðarins á Norðurlandi sem hefur aðsetur á Vöglum í Fnjóskadal. Benjamín hefur undanfarin misseri starfað sem skógverktaki á Norðurlandi og kemur með dýrmæta reynslu og þekkingu í nýtt starf. Hann tekur til starfa í dag.

Benjamín er fæddur og uppalinn á Torfufelli og í Hólsgerði í Eyjafjarðarsveit. Hann lauk bakkalárgráðu í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2007 og árið 2012 lauk hann meistaragráðu í skógfræði frá umhverfis- og líftækniháskólanum að Ási í Noregi sem nú heitir Norges miljø- og biovitenskapelige universitet (NMBU). Að auki hefur hann sótt ýmis námskeið í faginu, til dæmis um jólatrjáa- og skjólbeltarækt.

Frá árinu 2009 hefur Benjamín starfað sem skógarverktaki hér heima við grisjun, gróðursetningu og girðingar. Áður starfaði hann um tíma sem verkefnastjóri hjá Héraðs- og Austurlandsskógum við ráðgjöf og skipulagningu jarðvinnslu, gróðursetningar, stígagerð og grisjun ásamt kortlagningu og áætlanagerð fyrir samningsbundnar jarðir.

Að loknu námi í Noregi vann Benjamín tæpt ár við skógmælingar og áhringjamælingar með Tsap Win forritinu hjá NMBU. Sem skógarverktaki á Norðurlandi hefur hann séð um grisjun í þjóðskógunum, í bændaskógum og einkaskógum, unnið að gróðursetningu fyrir Norðurlandsskóga og Skógrækt ríkisins ásamt skógarmælingum og ráðgjöf fyrir einstaklinga og Norðurlandsskóga.

Benjamín er áhugamaður um íþróttir og útivist og situr m.a. í stjórn íþróttafélagsins Samherja. Hann er kvæntur, þriggja barna faðir og fjölskyldan býr í Hólshúsum 1 í Eyjafjarðarsveit.

Skógrækt ríkisins býður Benjamín Örn Davíðsson velkominn til starfa!

Texti: Pétur Halldórsson