Hlaut flest atkvæði í almennri kosningu starfsfólks

Átján hugmyndir bárust frá fimm þátt­takendum í lokaðri samkeppni um nýtt merki Skógræktarinnar sem lauk 2. nóvember. Eftir yfirferð fagmanns og umfjöllun framkvæmdaráðs Skógræktar­innar var efnt til kosningar meðal starfsfólks um þau þrjú merki sem þóttu álitlegust. Merkið sem hlaut flest atkvæði hannaði Halldór Björn Halldórsson, doktorsnemi í grafískri hönnun við LTU, tækniháskólann í Luleå í Svíþjóð.

Halldór Björn Halldórsson, hönnuður merkisins, útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 1999. Hann hefur starfað á auglýsinga­stofum bæði á Íslandi og í Svíþjóð en undanfarin fimm ár hefur hann verið ráðgjafi hjá Apple Store í Stokkhólmi þar sem hann þjónaði m.a. hönnuðum sem nota tölvu- og hugbúnað frá Apple við vinnu sína. Halldór hætti störfum hjá Apple á liðnu vori og tók við stöðu doktorsnema í grafískri hönnun við tækniháskólann í Luleå í Svíþjóð.

Nýtt merki Skógræktarinnar undirstrikar að við sameiningu sex skógræktarstofnana ríkisins fyrsta júlí síðastliðinn varð til ný stofnun. Merkið er einfalt að gerð og hefur víða skírskotun. Það minnir á tré án þess að vísa sérstaklega til ákveðinna trjátegunda. Hönnuðurinn lýsir merki sínu á þessa leið:

Trjástofnar, laufblöð og iðagrænir skógar tilheyra hversdagslífi starfsmanna Skógræktarinnar og þangað er sóttur innblásturinn að nýju merki stofnunarinnar. Hringform merkisins vísar til þeirrar eilífu hringrásar sem á sér stað í lífríkinu og formhreyfingin teygir sig uppávið, áfram og til framtíðar. Mjúk form letursins undirstrika síðan þann lífræna uppruna sem er grunnur allra verka Skógræktarinnar.  

Aðrir hönnuðir sem tóku þátt í samkeppninni um merkið eru í stafrófsröð: Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Esther Ösp Gunnarsdóttir, Gísli B. Björnsson og Þrúður Óskarsdóttir. Skógræktin þakkar þeim kærlega fyrir þátttökuna. Margar góðar tillögur, alls átján talsins, bárust frá hönnuðunum fimm. Faglegur ráðgjafi við úrvinnslu tillagnanna var Hlynur Hallsson, myndlistarmaður og forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri. Hlynur mælti með þremur tillagnanna og framkvæmdaráð Skógræktarinnar komst að sömu niðurstöðu. Þessi þrjú merki voru lögð fyrir alla starfsmenn Skógræktarinnar í almennri kosningu og valdi Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri þá tillögu sem flest atkvæði hlaut.

Fram undan er að festa endanlega útfærslu merkisins og reglur um notkun þess í samráði við hönnuðinn. Leyfilegar útgáfur merkisins verða birtar á vef Skógræktarinnar á næstunni ásamt fyrirmælum um leyfilega liti.

Texti: Pétur Halldórsson