Fjölmenn ráðstefna um skógrækt og fjölþætt gildi skóga verður haldin í Skógræktarskólanum að Nødebo á Norður-Sjálandi í Danmörku, á mánudaginn 29. og þriðjudaginn 30. ágúst. Á ráðstefnunni verður fjallað um gildi skóga fyrir samfélagið. Connie Hedegaard samstarfs-, umhverfis- og skógræktarráðherra Danmerkur mun opna ráðstefnuna ásamt Niels Elers Koch yfirmanns Konunglega dýralækna-og landbúnaðarháskólans (KVL). Í ráðstefnunni taka þátt stjórnmálamenn, fagfólk og sérfræðingar í skógræktarmálum. Meðal þátttakenda verður Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra (og um leið, skógræktarráðherra) ásamt föruneyti íslenskra embættismanna og skógræktarmanna.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra gróðursetur 15 milljónustu Landgræðsluskógaplöntuna í Smalaholti, Garðabæ, fyrr í vikunni. Mynd: Jóhann Frímann Gunnarsson (Skógræktarfélagi Íslands)


Ráðstefnan tengist tveimur skýrslum um þýðingu og gildi skóga sem kynntar verða á ráðstefnunni. Vörur unnar úr trjáviði úr skógum gefa skógunum beint efnahagslegt gildi, en skógurinn er einnig mikilvægur fyrir sveppa- og berjatínslu. Í Svíþjóð og Finnlandi eru nýting lífmassa til orkuvinnslu samtvinnuð annarri nýtingu trjáviðar úr skógum og mikilvægur þáttur í orkubúskap landanna. Auk þess eru skógar á Norðurlöndum mikilvægir fyrir bindingu koltvísýrings úr andrúmslofti, og stuðla að hreinsun vatns og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Þar að auki eru skógar mikilvægir til útiveru og hreyfingar auk þess sem þeir eru búsvæði villtra dýra sem nýtt eru til veiða. Á mörgum stöðum er skógurinn einnig áfangastaður ferðamanna.

Þessir fjölmörgu möguleikar skóganna og gildi þeirra fyrir samfélagið verða til umræðu á tveggja daga ráðstefnu sem haldin verður í Skógræktarskólanum að Nødebo í Danmörku. Reiknað er með að á fundinum muni ráðherrar skógræktarmála samþykkja yfirlýsingu um skóga á Norðurlöndum í lok ráðstefnunnar.

Heimild: Vefur Norrænu ráðherranefndarinnar
Dagskrá ráðstefnunnar:

  Skýrslur sem kynntar verða á ráðstefnunni:

Skýrsla um virðisauka í skógrækt

Skýrsla um virðisauka í skógrækt (styttri útgáfa)

Gildi skógræktar í norrænum samfélögum

Skógræktarrannsóknir á Norðurlöndunum